Færsluflokkur: Menning og listir

Eru myndasögur ennþá fyrir börn?

Í gegnum tíðina hafa flestir litið á myndasögur sem barnaefni. Hvort að svo sé raunin hefur hins vegar aldrei verið staðfest. Hverjir lesa eiginlega myndasögur? Það virðist heldur ekki vera mikið af rannsóknum, skoðunnarkönnunum eða öðrum könnunum sem hafa tekið þetta efni fyrir.

comic-books-by-age-300x203

Ein könnun sem að ég sá á netinu fyrir stuttu, tók fyrir þá sem telja sig vera aðdáendur myndasagna og samkvæmt henni þá skiptist aldurinn upp eins og á myndinni til hægri: 17 ára og yngri eru 13,8%, milli 18 og 30 ára eru 63,4%, milli 31 og 45 ára eru 19,2% og 46 ára og eldri eru 3,5%.

Af þessu má sjá að stærsti hópurinn er 18 til 30 ára og hópurinn 31 til 45 ára er nokkuð stærri en hópurinn 17 ára og yngri. Af þessari könnun að dæmi þá eru börn í miklum minni hluta af þeim sem að lesa myndasögur. Hvað hlutfall kynjanna varðar þá eru sirka 25 % konur sem að lesa myndasögur, flestar í hópnum 17 ára og yngri eða tæp 30%. Könnunin miðaðist við myndasögulesendur í Bandaríkjunum.  

Ég ætla svo sem ekkert að segja til um nákvæmni eða aðferðarfræði þessarar könnunar, en hún ber merkilega vel við kannanir sem að ég þykist hafa séð í sambandi við kvikmyndir í Bandaríkjunum. Þar er helsti markaðshópurinn 15-30 ára og karlkyns og því er ekki á óvart hvers konar kvikmyndir er mest framleitt af í Bandaríkjunum og fyrir hvaða markað. Þeir sem eru orðnir eldri en þrítugt hafa takmarkaðan tíma til þess að fara í bíó og þá kannski helst með börnunum. Frekar sest fólk uppí sófa og glápir á sjónvarpið til þess að slaka á (eða fyrir framan tölvuna til þess að góna á sjónvarpið). Það kemur því heldur ekki á óvart þegar skoðað er úrvalið af myndasögum í Bandaríkjunum. Stærstu útgefendur myndasagna í Bandaríkjunum, Marvel og DC, eru með meira en 75% markaðshlutdeild og gefa fyrirtækin nær eingöngu út ofurhetju myndasögur. Þessar ofurhetju myndasögur eru einkum ætlaðar 15-30 ára körlum þar sem aðalsögupersónurnar eru vöðvabúnt og í aukapersónur eru sérkennilega vaxið kvennfólk og fleiri vöðvabúnt.

Á síðusta áratug hefur þó komið í ljós að 15-30 ára kvenfólk var og er markaður sem að myndasögur (og kvikmyndir) hafa lítið sem ekkert gert útá en er ekkert síður stór. Twilight myndiasérían sem að hafa verið í bíó síðustu ár hefur verið með söluhæstu myndum síðustu ára. Manga myndasögurnar hafa blésu lífi í myndasögu markaðinn og t.d. í evrópu þá tvöfaldaðist næstum sala myndasagna (í Bandaríkjunum hafði Manga bomban ekki jafn mikil áhrif en þó mikil). Manga myndasögurnar hafa verið mest keyptar af stúlkum enda er það svo að flestir manga titlar sem að eru gefnir út í evrópu eru fyrir stúlkur. (Í Japan er úrvalið mun breiðara bæði hvað kynin varðar og aldur en hér á vestur löndunum er bara gefið út brot af því sem að er gefið út í Japan, en það er þó þörf viðbót).

Myndaskáldsögur (e. Graphic Novels) hafa einnig verið að sækja í sig veðrið síðasta áratug hvað efnistök og markhóp varðar. Þannig komu út fleiri myndaskáldsögur sem eru ætlaðar eldri lesendur. Þetta verður að teljast jákvæð þróun. 

 


Metamýs og að vakta vaktmennina

Þegar ég var um tvítugt var ég að leita af einhverju bitastæðara en ofurhetju myndasögurnar buðu uppá. Ég rakst þá á þrjár bækur sem að mörgu leiti voru ólíkar en uppfylltu þörf mína fyrir eitthvað bitastætt og höfðu áhrif á það í hvaða átt ég vildi gera mínar eigin myndasögur. Þessar þrjár myndasögur voru A contract with God eftir Will Eisner, Maus eftir Art Spiegelman og Watchmen eftir David Gibbons og Alan Moore. Þetta voru fyrstu sögurnar sem að ég las eftir alla þessa höfunda sem að í dag eru orðnir þekktustu myndasöguhöfundar síðustu hálfa öldina.

61HgzAEM9QL._SL500_AA300_

A constract with God (ísl. Samningur við guð) kom út fyrst árið 1978 og var lengi talað um fyrstu myndaskáldsögu (e. graphic novel) sem kom út þó að þegar rýnt er betur í sögu myndasögunnar kemur í ljós að það eru líklegast aðrar bækur sem að eiga þann titill frekar skilið, t.d. Gods' Man eftir Lynd Ward eða He done her wrong eftir Milt Gross (athyglisvert er að báðar hafa engan texta). Will Eisnar sem að var þekktur í myndasögubransanum þegar hann gaf út þetta verk sitt vildi samt ekki nota orðið comic (ísl. skrípó) til þess að lýsa myndasögu sinni og notaði því frekar orðið graphic novel í von um að losna við þann stimpill sem að orðið comic hefur. Myndasögur og sérstaklega orð eins og skrípó eru ekki taldar merkilegar bókmenntir. Sú tilraun Eisners bar þó ekki mikinn árangur og er það ekki fyrr en í lok síðustu aldar sem að myndaskáldsögur voru gefnar út í einhverjum mæli.

Þar sem þessar þrjár myndasögur höfðu áhrif á mína myndasögugerð þá ég fljótur að kaupa mér bókina Watching the watchmen (ísl. Fylgst með vaktmönnunum) eftir David Gibbons, Chip Kidd og Mike Essl sem kom út árið 2008 en sú bók fjallar um gerð myndasögunnar Watchmen (ísl. Vaktmennirnir) út frá sjónarhorni Gibbons. Bókin er áhugaverð jafnt fyrir þá sem hafa áhuga á myndasögugerð svo og þeim sem fannst myndasagan góð. Að vissu leiti vantar þann hluta hvernig Alan Moore skrifaði söguna en efni bókarinnar er engu síður mjög áhugavert og áhugvert að sjá hvernig myndasagan þróast frá upphaflegu hugmyndinni í handritið, skissur og svo endanlega myndasögu. Gibbons hefur frá mörgu mjög áhugaverðu að segja og er bókin einkar vel heppnuð. Upphaflega myndasagan kom út árunum 1986 og 1987 og voru heftin svo gefin út í einni bók.

51t+s+fVPjL._SL500_AA300_Núna í haust var svo verið að gefa út bókina Metamaus sem fjallar um gerð myndasögunnar Maus (ísl. Mús) í viðtalsformi. Viðtalið er tekið af Hillary Chute en mikið er af myndum af því sem að Spiegelman notaði til þess að gera myndasöguna. Að auki fylgir DVD-diskur með myndasögunni sjálfri og ítarefni sem að tengist Maus, t.d. heimildarmynd eftir konu Spiegelmans, Francoise, um ferð þeirra til Auschwitz árið 1987 í heimildar leit. Bókin er mjög áhugaverð fyrir alla þá sem að höfðu gaman af myndasögunni Maus og þeim sem áhuga á þeim atburðum sem að gerðust í síðari heimstyrjöldinni í Auschwitz. Upphaflega kom Maus út í tveimur bindum, fyrra bindið árið 1986 og síðara bindið 1991.

Habibi, myndasögur og ásættanlegt verð

habibi1

Fyrir nokkrum mánuðum frétti ég af bókinni Habibi eftir Graig Thompson og sá brot úr bókinni og leyst vel á. Bókin var svo gefin út í þýskri þýðingu hérna í Þýskalandi fyrir nokkrum vikum og um daginn þegar ég var í myndasögubúðinni hérna í Karlsruhe sá ég bókina. Bókin er yfir 650 blaðsíður og lítur í alla staði mjög vel út. Ég var við það að setja hana á staflann myndasögum sem ég ætlaði að kaupa þegar ég leit á verðið: 39 Evrur (það gerir 6.300 krónur miðað við gengið í dag). Ég fletti í gegnum bókina og velti því fyrir mér hvort að ég væri tilbúinn að kaupa bókina fyrir þetta verð. Flottar teikningar, eiginlega stíll sem að ég kann mjög vel við, í áttina að Will Eisner og flottari teikningar en Graig teiknaði í bók sinni Blankets. Ég lagði bókina aftur á borðið. 39 Evrur er slatta mikið hugsaði ég. Ég tók bókina öðru sinni og fletti í gegnum hana. Nei, 39 Evrur er of dýrt hugsaði ég með mér og lagði bókina aftur á borðið. Seinna fór ég á Amazon og fann bókina á ensku fyrir 15 Evrur (= 2.400 krónur) og keypti hana.

Þetta fékk mig til þess að velta því fyrir mér, hvað er ég tilbúin að eyða miklum pening. Ef að þeir hefðu gefið bókina út í tveimur bindum og hvort á bindi á 20 Evrur (= 3.200 krónur) þá hefðu þeir frekar getað platað mig. En 20 Evrur finnst mér í dýrara lagi. Ég hefði verið tilbúinn að borga 25 Evrur (= 4.000 krónur) fyrir bókina og ef hún hefði kostað það þá hefði ég keypt hana í bókabúðinni.

Myndasagan Plúta eftir Naoki Urasawa hef ég verið að kaupa í þýskri þýðingu fyrir 13 Evrur (= 2.000 krónur) og hef fundist það í dýrara lagi en látið mig hafa það því sagan er góð og vel sögð. 10 Evrur fyndist mér að bókin ætti að kosta. Svipað er með þeir frönsku myndasögur sem er verið að gefa út sem albúm (eins og við Íslendingar þekkjum Sval og Val, Viggó og Tinna). Þær bækur eru flestar með albandi, prentaðar á fínan pappír og í lit og kosta 14 Evrur (= 2.200 krónur) og ef mér líst á teikningarnar og sögurnar þá læt ég mig hafa það að kaupa þær, ef að sagan er góð þá finnst mér kaupin hafa borgað sig, ef ekki þá finnst mér bókin hafa verið of dýr. Svalur og Valur hefur verið gefin út í kilju fyrir 10 Evrur og hef ég síður séð eftir þeim pening.

Verðið á myndasögunni hefur því talsverð áhrif á það hvort að ég er tilbúinn að kaupa myndasöguna eða ekki. Til að útskýra þetta betur þá var ég einu sinni í hljómtækjaverslun þar sem að seldur voru hljómdiskar. Nýjir hljómdiskar kosta á bilinu 15-18 Evrur (= 2.400-2.900 krónur) og venjulega kaupi ég ekki nýja diska á því verði nema að mér finnist flytjandinn góður eða að ég hafi heyrt a.m.k. 3 góð lög af disknum. Þennan dag var útsala á flestum nýjum diskum og kostuðu þeir rétt undir 10 Evrur (=1.600 krónur). Þar sem að ég var að leita mér að nýrri tónlist til að hlusta á (meðan ég er að teikna myndasögur) þá ætlaði ég að kaupa einhvern disk. Ég endaði á því að kaupa 7 diska fyrir samtals 70 Evrur (= 11.200 krónur). Ef diskarnir hefðu verið á sínu venjulega verði þá hefði ég ekki keypt nema tvo, sem hefðu þá kostað 30-36 Evrur. Þeir diskar sem að ég keypti vora allt diskar sem ég hafði áhuga á að heyra. Það var enginn diskur sem ég keypti af því að hann kostaði svo lítið því 10 Evrur (=1.600 krónur) finnst mér of mikið fyrir svoleiðis disk (þá þarf diskurinn að vera vel innan við 5 Evrur (= 800 krónur)).

Verðið hefur því talsverð áhrif á það hvort maður kaupi hlutinn eða ekki. 


Heimasíða um myndasögur og nýtt NeoBlek blað

couv_18_neoblekNúna í lok september kom út átjánda tölublað NeoBlek blaðsins og er það þriðja NeoBlek blaðið sem að kemur út á þessu ári. Það er því ekki annað hægt að segja en að þeir félagar að baki NeoBleks séu að standa sig í stykkinu við að halda uppi íslenskri menningu.

Í þessu blaði má finna franskar myndasögur í íslenskri þýðingu ásamt íslenskum myndasögum, greinar og viðtöl. Frönsku myndasögurnar eru Skvísur eftir Delaf og Dubuc, Þriðja testamentið eftir Alice og Dorison, Lína eftir Neel, Á valdi Kakkalakkanna (Svalur og Valur) eftir Yann og Schwartz og Wischer eftir De Vita og Latour. Íslensku myndasögurnar eru Grýla og Leppalúði eftir Jean Posocco og Frí í Bæjaralandi eftir Inga Jensson.

NeoBlek blaðið má nálgast í Nexus, Bóksölu Stúdenta, Máli og Menningu Laugavegi, Eymundsson Austurstræti og á heimasíðu NeoBleks

Eins og þetta væri ekki nóg þá hafa þeir félagar set af stað heimasíðu fyrir íslenskar myndasögur sem heitir einfaldlega myndasogur.is og mun fjalla um eitt og annað tengt myndasögum. Þar er hægt að lesa sýnishorn af nýjasta NeoBlek blaðinu og með því að taka laufléttum Tinnaleik jafnvel vinna eitthvað. Nánari upplýsingar um leikinn og vinninga er að finna á heimasíðunni myndasogur.is 


Heimspeki ofurhetja: ókeypis E-Bók

Þeir sem hafa áhuga á að læra og skilja heimspeki ofurhetja geta lesið bókina The Best of Philosophy and Pop Cultureen þar er hægt að nálgast frítt eintak sem E-Bók. Í bókinni er tekin fyrir heimspeki ýmsa ofurhetja eins og Captain Amerika, Thor, Iron Man, Spider-Man, Batman, Superman, Green Lantern og Watchmen. Bókina er hægt að lesa í flestum E-Bóka leserum eins Kindle, Nook, Kobo, og iPad eða iPhone. Þeir sem hafa ekki slíka lesara geta náð í Kindle lesaran frá Amazon en eftir því sem ég best veit þá virkar hann einnig fyrir hefðbundnar tölvur.

superheroes-cover


Ofurhetjur bjarga deginum einu sinni enn!

Rakst á þessa skemmtilegu mynd á http://imgur.com þar sem að litlum strák var bjargað af Flash og Wonder Woman (sem á jú stór afmæli í ár þó maður sjái það ekki á henni á myndinni) þegar hann hafði týnt foreldrum sínum á Comic-Con myndasögu sýningunni. Sá litli vissi ekki sitt rjúkandi ráð en sá þá kunnulegar andlit og bað þau um hjálp.

Flash og Wonder Woman til hjálpar


Inngangur að myndasögugerð

Hingað til hef ég ekkert skrifað um gerð myndasagna, svo kannski kominn tími til. Þessi inngangur er frekar hugsaður til að gefa innsýn inní myndasögugerð, þar sem að auðvelt væri að fylla bók bara með inngangi að myndasögugerð. Ég reikna með að taka fyrir einstaka þætti í myndasögugerð fyrir í einhverjum færslum í framtíðinniþ

Það er ekki til nein ein rétt leið til þess að gera myndasögu, svo að það er engan vegin hægt að setja þetta fram sem uppskrift sem fólk getur farið eftir og tilbúinn er myndasaga sem allir hafa gaman af. Eins eru til mismunandi skoðanir á því hvernig góð myndasaga á að vera. Og að sjálfsögðu eru til mjög mismunandi aðferðir og hugmyndir hvernig á að kenna myndasögugerð.

Einn af mínum myndasögukennurum sagði margoft að sá sem gerir myndasögu þarf að hafa kunnáttu á mörgum sviðum. Hann þarf að geta teiknað, samið sögu, skrifað handrit, leikstýrt, leikið, málað, þekkja til litafræði, þekkja til prentverks, hanna byggingar, hanna innbú, hanna föt o.s.fr. Að sjálfsögðu er hægt að gera myndasögu án þess að hafa þekkingu á öllum upptöldum atriðum en vilji maður starfa við myndasögugerð og gera góðar myndasögur er betra að hafa einhverja innsýn inní þessa þætti.

Það er til mjög mikið af bókum tengdar myndasögugerð og fyrir einhvern sem að langar til að læra hvernig á að gera myndasögur getur verið erfitt að finna þá bók eða þær bækur sem eru af einhverju gagni. Ég mun nefna eina eða aðra bók sem ég held að geti hjálpað. Bækurnar eru þó allar á ensku þar sem ég hef ekki séð neina bók á Íslensku um myndasögugerð. Þeir sem hafa lesið nýjustu NeoBlek bl0ðin hafa þá séð greinarstúfa í blaðinu um myndasögugerð.

Einn af grundvöllum þess að gera myndasögu yfirhöfuð er að skilja hvað myndasaga er. Þetta hjómar kannski einfald og óþarfi að nefna en ástæðan fyrir því að ég nefni þetta atriði, er sú að sá sem aldrei hefur lesið myndasögu mun eiga mjög erfitt með að gera góða myndasögu. Sá sem skilur hvernig myndasaga virkar er strax í betri aðstöðu að gera góða myndasögu og þess vegna er mjög hjálplegt að lesa myndasögur. Með því móti lærum við ómeðvitað hvernig myndasaga virkar og frásagnatækni hennar. Í því samhengi bendi ég á bók Scott McLoud Understanding Comics sem var brautryðjenda verk þegar hún kom út.

Eitt af grunnatriðum myndasögunnar eru myndirnar sem að segja söguna. Mikill meiri hluti myndasagna er handteiknaður en á síðari árum hefur tölvan verið notuð meir og meir við gerð myndasögu, í flestum tilvikum til þess að vinna handteiknuðu myndirnar enn frekar, t.d. lita þær, en einnig til þess að gera myndirnar frá grunni, t.d. teikna í tölvu eða nota þrívíddar forrit til þess að gera myndirnar. Önnur leið væri að taka myndirnar á myndavél og búa þannig til myndasögu. Myndir með myndavél hafa hins vegar þann ókost að mjög líklega er þörf á leikurum og mikil eftirvinnslu er þörf ef að myndasagan á ekki að gerast í nútímanum og í hversdagsleikanum.

Það borgar sig því fyrir þann sem ætlar að gera myndasögu að læra (eða kunna) að teikna. Hversu góður teiknari fer eftir smekk og kröfum hvers og eins, svo og þeirri sögu sem að á að vera sögð. Það er talað um mismunandi teiknistíla. Hver stíll hefur sína kosti og galla og passa misvel til að segja ákveðnar tegundir af sögu. Teiknistíll eins og Hugleiks Dagssonar hentar vel þeim sögum sem að hann er að segja, svartur og oft á tíðum ofbeldisfullur húmor hans kemur vel til skila án þess að ofbjóða fólki, þar sem ímyndunarafl lesandans sér um að túlka myndasöguna yfir á veruleikann. Með þessum stíl á Hugleikur þó erfiðara með að fanga lesandann í sögu sinni, lesandinn hefur alltaf ákveðna fjarlægð frá söguna þar sem að teikningarnar eru almennar og óhlutbundnar. Dramatískar, tilfinningaríkar og flóknar sögur er erfitt að segja með þeim stíl sem Hugleikur notar í flestum sínum verkum, en slíkar sögur er Hugleikur heldur ekki að reyna að segja.

Hænan eða eggið: er samt til uppskrift?

Þegar verið er að búa til myndasögu er ákveðin skref sem gott er að taka í ákveðinni röð, t.d. er gott að vera a.m.k. með drög af sögu áður en byrjað að teikna. Það er erfiðari leið að teikna helling af myndum og reyna síðan að púsla þeim saman svo að þær myndi sögu. Hefðbundið ferli til að búa til myndasögu má skipta upp í eftirfarandi skref:

  1. Uppkast að sögu skrifað. Hér er venjulega hugmynd myndasögunnar ákveðin, aðalpersónurnar og gróf atburðarás samin.
  2. Handrit skrifað. Það er mjög mismunandi hversu nákvæmt handrit er gert og stundum er ekki einu sinni haft fyrir því að skrifa slíkt. Í bandarískum kennslubókum er venjulega talað um muninn á DC og Marvel aðferðinni en þar eru líka um að ræða einn höfund sem sér um söguna og svo teiknara sem að sér um að koma sögunni í myndir en þegar höfundur sögunnar er líka teiknari eru þessar aðferðir ekki endilega nauðsynlegar.
  3. Pár og þumalneglur eða Skribble og Thumbnails. Hergé, höfundur Tinna, skrifaði sögur sínar með því að pára myndirnar jafnóðum og hann samdi söguna. Hann skrifaði ekki handrit. Flestir þeir sem að hafa handrit til að styðjast við teikna svo kallaðar þumalneglur (á ensku thumbnails) og á spássíur handritsins til þess að skipuleggja betur hvernig myndir eiga að vera á blaðsíðunni. Sumir gera hvoru tveggja. Stærð þumalnaglar er þó eitthvað stærri en venjuleg mannsnögl á þumalfingri. Ef handritið er nokkuð nákvæmt, t.d. skiptir sögunni í myndir (panila) á síðunni þá er stundum párað eða skissaðar hugmyndir af myndunum á spássíu handritsins.
  4. Skissur. Þegar það er nokkuð ljóst hvernig síðan á að líta út er hún skissuð á síðuna. Sumir teiknarar taka Þumalnöglina af síðunni og stækka hana upp og nota sem grunn fyrir skissuna. Aðrir skissa fyrst á minna blað og stækka það svo upp. Í skissu er leitast við að hlutföll í myndinni séu rétt svo og bakgrunnur, líkamstjáning og svipbrigði persóna komi sögunni til skila. Þetta skref er venjulega margendurtekið þar til að teiknarinn er orðinn sáttur við útkomuna.
  5. Fínteiknung/hreinteiknung. Flestir fínteikna svo skissurnar og bæta við fleiri smáatriðum í teikninguna. Það eru þó sumir teiknarar sem að fara beint í tússun. Ef það er annar sem að tússar þá komast flestir teiknarar ekki hjá þessu skrefi.
  6. Tússun eða inking á ensku. Hér eru pennar og teiknifjaðrir notaðar ásamt bleki til þess að fá teikningarnar svartar sem að prentast vel. Það eru til myndasögur þar sem að það er ekki tússað en týpískum ofurhetju sögum, manga eða evrópskum sögum er hefð fyrir því að tússa teikningarnar áður en að þær eru litaðar.
  7. Litun/röstun. Asískar myndasögur (eins og t.d. Manga) eru venjulega gefnar út í svart-hvítu í stórum heftum og pappírinn er ekki ósvipaður og er í dagblöðum eða símaskránni. Til þess að skygging og skuggar koma vel út þá eru rastar notaðir og tekst þeim þannig að ná fram mjög raunverulegum myndum með þessari tækni. Í evrópu og bandaríkjunum hafa myndasgöur þó aðallega verið litaðar. Fyrir nokkrum áratugum var talsverður munur á lituðum evrópskum myndasögum og bandarískum þar sem að bandarískar myndasögurnar voru gefnar út á mjög ódýran pappír og litirnir notaðir út frá litatöflum sem að var svo skorið út úr litaplötunum fyrir prentun. Í dag er þó mest litað með tölvum. Í evrópu voru vatnslitir mikið notaðir þar sem að síðurnar voru meðhöndlaðar eins og ljósmyndir í blöðum.

watchmen_processHér má sjá hvernig ein síða hefur þróast hjá teiknaranum Dave Gibbons en þetta er síða úr sögu hans Alans Moores Watchmen. Til vinstri er Þumalnögl af síðunni en stærð þumalnaglarinnar er á stærð við spil. Í miðjunni er svo teikning Gibbons af síðunni með blíanti og að lokum er síðan eins og hún leit út prentuð og fullkláruð.


Að fá eitthvað frítt

Viku eftir ókeypis myndasögu daginn á Íslandi, er ókeypis myndasögudagur í Þýskalandi. Ég brá því í myndasögubúðina hér í Karlsruhe til að næla mér í eitthvað af því sem í boði var.

Yfirleit er það nú þannig að ekkert er ókeypis. Venjulega þá hangir eitthvað á spýtunni, t.d. þú færð fyrstu þrá mánuðina fría af áskrift af einhverju en áskriftin gildir í tvö ár. Þetta á að sjálfsögðu líka við um ókeypis myndasögur þó að það fylgi því engin skilyrði að næla sér í ókeypis myndasögu. Hugmyndin að baki ókeypis myndasögu dagsins er sú að fá fólk sem venjulega les ekki myndasögur til þess að lesa myndasögur og þannig kannski fá áhuga á myndasögum og kaupa myndasögur. Fyrir þá sem lesa myndasögur er hugmyndin að kynna fyrir þeim nýjar myndasögur sem að þeir myndu annars ekki prófa að lesa og ef allt gengur eftir þá kaupa þeir áframhaldandi myndasögur í þeirri seríu.

Þetta er annað árið í röð sem að ókeypis myndasögudagurinn er haldinn í Þýskalandi, þar sem þýskir útgefendur taka þátt. Að þessu sinni voru 44 titlar í boði frá eitthvað um 30 útgefendum. Í myndasögubúðinni sem ég fór fékk maður að velja 3 ókeypis myndasögur. Ég get ekki sagt að valið hafi verið auðvelt og ég að vissu leiti fannst mér það synd að fá ekki að taka 2-3 fleiri eintök til að prófa (að sjálfsögðu væri ég til að lesa allar myndasögurnar en slíkt var að sjálfsögðu ekki í boði), þar sem að mund fleiri myndasögur vöktu áhuga minn. Ég endaði á því að taka myndasögurnar Colden City (Gullborgin) eftir Pecqueur, Malfin Schell og Rosa, Die Legende: Der Drachenritter (Þjóðsögnin: Drekariddarinn) eftir Ange og Varanda, og svo Die Müllers (Müller Fjölskyldan) eftir Seron.

Cover_Golden_City

Úrval þeirra 44 titla sem í boði voru, var nokkuð gott. Það var eitthvað fyrir krakka, unglinga og fullorðna, stelpur og stráka. Bandarískar ofurhetju myndasögur, manga og frankó-belgískar myndasögur. Ævintýri, rómantík, húmor, hrollvekja og sakamálasögur.

Ég get ekki sagt að verslunin hér í Karlsruhe geri mikið út á þennan dag. Verslanir í mörgum öðrum borgum gera meira út deginum með því t.d. að fá myndasöguteiknara og höfunda til þess að árita myndasögur sínar, aukaleg tilboð og sýninga svo að eitthvað sé nefnt. Einnig hef ég ekki orðið var við mikla umfjöllun í dagblöðum hér í Karlsruhe. Engu að síður þá virtist fólk vita af þessu. Ég fer venjulega einu sinni í mánuði í búðina til að kíkja hvaða myndasögur hafa komið út og venjulega er ég á laugardagsmorgni og er þá venjulega ekki mikið um manninn, hægt að telja kúnnanna á fingrum einnar handar. Í gær var þó talsvert af fólki á svipuðum tíma og ég er venjulega, ég myndi giska á ca. 30 manns.

Jæja, það er best að lesa þeir myndasögur sem að ég fékk fríar og sjá hvort að þær vekja áhuga hjá mér sem verður til þess að ég muni kaupa fleiri bækur í seríunum.


Ókeypis myndasögur 2011

Í tengdri frétt er talað um alþjóðlegan ókeypis myndasögu dag og á það við ef heimurinn er Bandaríkin. Þessi dagur er ekki alstaðar í heiminum og ekki alltaf á sama degi, t.d. er ókeypis myndasögudagurinn laugardaginn 14. maí í Þýskalandi.

Hvað um það, dagurinn á morgun er mjög merkilegur fyrir Íslendinga því eftir því sem ég best veit þá er þetta í fyrsta skipti sem að íslenskar myndasögur verða gefnar ókeypis. Frumkvöðlarnir að því eru þeir útgáfufyrirtækið ÓkeiBæ (sem Hugleikur Dagson rekur) og verslunin Nexusen þeir munu gefa út og gefa blaðið ÓkeiPiss. Einnig munu þeir í NeoBlek gefa eintök af nýja tölublaði sínu.

2011okeypis 

Atburðurinn hefst í verslun Nexus og ætti engin að láta þetta framhjá sér fara. Í boði verða einnig blöð sem eru ókeypis í Bandaríkjunum á morgun. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér hvað í boði er þá er Chris Sims tekið saman það helsta og Dorian Wright fer í gegnum allan listann sem er í boði af ókeypis bandarískum myndasögum. Veislan byrjar klukkan 13:00.

Á morgun verða einnig í boði stafrænar myndasögur á vefnum Graphic.ly.

Ókeypis myndasögudagurinn heldur nú uppá 10 ára afmæli sitt í Bandaríkjunum og hefur verslunin Nexus tekið þátt frá byrjun.


mbl.is ÓkeiPiss-myndasögudagurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ragnarök

Er að lesa myndasöguna Le Crepuscule de Dieux(Ragnarök) eftir Nicolas Jarry og Djief og svo Siegfried eftir Alex Alice, báðar myndasögurnar í þýskri þýðingu. Báðar myndasögurnar eru byggðar á óperum Richard Wagners Niflungahringurinn (samtals fjórar óperur: Rínargull (þ. Rheingold), Valkyrjan, Sigurður (þ. Sigfried) og Ragnarök (þ. Götterdämmerung)) en óperurnar eru byggðar á Niflungakvæðum, Völsungasögu og svo norrænni goðarfræði, nokkuð sem að við Íslendingar þekkjum vel. Þrátt fyrir sama efni þá eru efnistök þessara myndasagna talsvert ólík og útkoman einnig.

9782302006577Le Crepuscule de Dieux (Ragnarök) eftir þá Nicolas Jarry og Djief er samtals sjö albúm, ca. 48 blaðsíður hvert. Þau albúm sem þegar eru komin út bera nöfnin: 0: Bölvun hringsins (fr. La Malédiction de l'anneau, 2009), 1. Bölvun Niflunga (La Malédiction des Nibelungen, 2007), 2. Sigurður (f. Siegfried 2007), 3. Fáfnir (2009), 4. Brynhildur (f. Brunehilde, 2010), 5. Grímhildur (f. Kriemhilde, verður gefin út 2011). Ég byrjaði að lesa albúm 0: Bölvun hringsins og síðan albúm 1: Bölvun Niflunga án þess að vita að þær voru gerðar og gefnar út í annarri röð. Það varð því talsverð endurtekning því í albúm 0 segir nánar frá atburðum sem eru sagðir mjög stutt í albúm 1. Efnið er stórbrotið og sögur eins og Hringadróttinssögu og Stjörnustríð blikna í samanburði. 

crepusculedesdieuxT04P09Söguþráðurinn er í stórum dráttum sú sama og í óperum Wagners en Jarry reynir að segja atburðina í sögulegt samhengi og sú viðbót hefur ekki skaðað söguna hingað til. ´´A nokkrum stöðum víkur hann frá atburðarás Wagners. Dæmi um slíkt er ást Sigmunds og Siglindar, foreldra Sigurðar, en einnig tvíburasystkini. Í óperu Wagners var Siglindi rænt og það er ekki fyrr en þau eru orðin ástfangin að þau uppgötva að þau séu systkin. Í sögu Jarry er Siglind ekki rænt, en að mínu mati bætir það ekki söguna. Eins er látið sem Logi plati Mími til að ná Sigurði rétt eftir fæðingu.

Þar sem söguefnið er stórbrotið þá tekur maður eftir að það er erfitt að koma ástæðum fyrir gjörðum og atburðum til skila. Þetta leiðir oft til mjög yfirborðskenndar frásagnar eða frásögn og skýringa, til þess að bæta við tilfinningalegum hluta bætir Jarry t.d. við athöfnum eins og að valkyrjan Brynhildur kasti og lesi rúnir en ég get ekki sagt að það sé plús fyrir söguna og spurning hvort það hefði ekki verið hægt að leysa hlutina á annan hátt. Þær tilraunir til þess að skýra út afstöðu og gjörðir Óðins, eru einnig eitthvað mátlausar. Eins verða sumir atburðir eitthvað knappir, t.d. barátta Sigurðar við Fáfnir.

crepusculedesdieux04p28Teikningar Djief eru mjög flottar og hann segir söguna ágætlega og hann virðist sækja innblástur sinn í myndir eins og Hringadróttinssögu og á það bæði við um hönnun sviðsmyndar og persónanna sjálfra. Þar finnst mér sjálfum veikleikar teikninganna vera. Hvernig fyrirbæri eins og jötnar, dreki, álfar, guðir, niflungar, víkingar og valkyrjur líta út, er nokkuð hefðbundið og ef eitthvað er klisjukennt. Það er ekkert nýtt og frekar eins og verið sé að hanna fyrir kvikmynd áður en að tölvutæknin varð ráðandi. Sviðsmyndin er mjög svipuð og í Hringadróttinssögu og stundum finnst mér hún ekki viðeigandi. Eitt dæmi er Hel og undirheimur hennar, þar sem hinir dánu hvíla. Jú, hún hefur bláan húðlit en að öðru leiti líkist hún amerísku ofurkvenhetjunum.

Þrátt fyrir þá veikleika sem að ég hef nefnt er myndasagan fín skemmtun og verður betri eftir því sem líður á söguna.

9782205062267Myndasagan Siegfried eftir Alex Alice (teiknaði Þriðja testamenntið eftir sögu hans sjálfs og Xavier Dorison og birtist í NeoBleki núna í ár) tekur talsvert öðruvísi á sögunni og er nær upphaflegu hugmynd Wagners, en upphaflega ætlaði Wagner að segja sögu Sigurðar Fáfnisbana en fannst hann svo þurfa að útskýra betur í hvaða samhengi saga Sigurðar er og þann heim sem að hún gerist í. Í samanburði við sögu Jerry og Djief er myndasaga Alex ljóðrænni og ævintýralegri og að mínu mati hefur betur tekist til. Það er ekki verið að reyna að segja söguna í sögulegt samhengi heldur fær hún að vera í sínum eigin ævintýraheimi. Það finnst mér vera plús því þær goðsagnakenndu persónur sem að koma fyrir í sögunni passa í þennan ævintýraheim. Sagan er gefinn út í þremur albúmum: 1. Sigurður (f. Siegfried, 2008), Sigurður II - Valkyrjan (f. Siegfried - La Walkyrie, 2009), 3. Sigurður III - Ragnarök (f. Siegfried III - Le Crepuscule de Dieux, 2011)

Alice fylgir heldur ekki atburðarrás Wagners en helstu atburðir eru þó í sögunni. Eins og nafn myndasögunnar gefur til kynna þá snýst sagan um Sigurð og byrjar hún þegar foreldrar hans eru drepnir og Siglind afhendir Mími Sigurð. Hver drepur foreldra Sigurðar, er ekki ljóst út frá myndunum en það gæti verið Óðin í fylgt valkyrja sinna. Alice setur söguna þannig upp að Brynhildur kemur að máli við Völvu og vill sjá framtíð Sigurðar. Þetta er mjög góð hugmynd og þannig getur Alice látið Völvuna sýna atburði sem hafa þegar gerst og þar með útskýrt bakgrunn sögunnar og hvaðan og hvaða tilgang persónurnar hafa í sögunni. Mesta breyting sögunnar frá óperu Wagners (og Rínarljóðunum) er að Brynhildur hjálpar Sigurði en Sigurður átti ekki að vita af Guðunum, því viti hann af þeim getur hann ekki náð í Rínargullið (í formi hrings sem Mímir smíðaði) sem að Fáfnir "liggur á". Fyrir þetta refsar Óðin henni og leggur loga í kringum hana. Þær breytingar og þær túlkanir sem Alice gerir koma að mínu mati mjög vel út.

SIEGFRIED-02_18-27-1-fa50cTeikningar Alice eru að mínu mati einnig hugmyndaríkari heldur en teikningar Djief og beri maður t.d. saman hvernig Óðinn er teiknaður þá hefur maður á tilfinningunni að Óðin teiknaður af Alice sé mun voldugri en Óðin teiknaður af Djief. Túlkun beggja á Mími er einnig skemmtilega ólík, en í höndum Alice er Mímir lítill og aum vera sem hefur enga burði til þess að berjast við Fáfni og maður getur ekki annað en haft samúð með. Djief (og Jerry) Mímir er hins vegar stór og sterkur og ætti þess vegna alveg eins að geta barist við Fáfni sjálfur en er verkfæri annara og maður getur engan vegin haft samúð með. Valkyrjur Alice er mjög tignarlegar og það er augljóst hvaða persónur eru guðlegar og hverjar eru mennskar.

Svo í stuttu máli sagt, Sigurður eftir Alex Alice er mjög góð myndasaga og tekst að ljá sögunni þann ævintýrablæ sem að atburðunum hæfir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband