Habibi, myndasögur og ásættanlegt verð

habibi1

Fyrir nokkrum mánuðum frétti ég af bókinni Habibi eftir Graig Thompson og sá brot úr bókinni og leyst vel á. Bókin var svo gefin út í þýskri þýðingu hérna í Þýskalandi fyrir nokkrum vikum og um daginn þegar ég var í myndasögubúðinni hérna í Karlsruhe sá ég bókina. Bókin er yfir 650 blaðsíður og lítur í alla staði mjög vel út. Ég var við það að setja hana á staflann myndasögum sem ég ætlaði að kaupa þegar ég leit á verðið: 39 Evrur (það gerir 6.300 krónur miðað við gengið í dag). Ég fletti í gegnum bókina og velti því fyrir mér hvort að ég væri tilbúinn að kaupa bókina fyrir þetta verð. Flottar teikningar, eiginlega stíll sem að ég kann mjög vel við, í áttina að Will Eisner og flottari teikningar en Graig teiknaði í bók sinni Blankets. Ég lagði bókina aftur á borðið. 39 Evrur er slatta mikið hugsaði ég. Ég tók bókina öðru sinni og fletti í gegnum hana. Nei, 39 Evrur er of dýrt hugsaði ég með mér og lagði bókina aftur á borðið. Seinna fór ég á Amazon og fann bókina á ensku fyrir 15 Evrur (= 2.400 krónur) og keypti hana.

Þetta fékk mig til þess að velta því fyrir mér, hvað er ég tilbúin að eyða miklum pening. Ef að þeir hefðu gefið bókina út í tveimur bindum og hvort á bindi á 20 Evrur (= 3.200 krónur) þá hefðu þeir frekar getað platað mig. En 20 Evrur finnst mér í dýrara lagi. Ég hefði verið tilbúinn að borga 25 Evrur (= 4.000 krónur) fyrir bókina og ef hún hefði kostað það þá hefði ég keypt hana í bókabúðinni.

Myndasagan Plúta eftir Naoki Urasawa hef ég verið að kaupa í þýskri þýðingu fyrir 13 Evrur (= 2.000 krónur) og hef fundist það í dýrara lagi en látið mig hafa það því sagan er góð og vel sögð. 10 Evrur fyndist mér að bókin ætti að kosta. Svipað er með þeir frönsku myndasögur sem er verið að gefa út sem albúm (eins og við Íslendingar þekkjum Sval og Val, Viggó og Tinna). Þær bækur eru flestar með albandi, prentaðar á fínan pappír og í lit og kosta 14 Evrur (= 2.200 krónur) og ef mér líst á teikningarnar og sögurnar þá læt ég mig hafa það að kaupa þær, ef að sagan er góð þá finnst mér kaupin hafa borgað sig, ef ekki þá finnst mér bókin hafa verið of dýr. Svalur og Valur hefur verið gefin út í kilju fyrir 10 Evrur og hef ég síður séð eftir þeim pening.

Verðið á myndasögunni hefur því talsverð áhrif á það hvort að ég er tilbúinn að kaupa myndasöguna eða ekki. Til að útskýra þetta betur þá var ég einu sinni í hljómtækjaverslun þar sem að seldur voru hljómdiskar. Nýjir hljómdiskar kosta á bilinu 15-18 Evrur (= 2.400-2.900 krónur) og venjulega kaupi ég ekki nýja diska á því verði nema að mér finnist flytjandinn góður eða að ég hafi heyrt a.m.k. 3 góð lög af disknum. Þennan dag var útsala á flestum nýjum diskum og kostuðu þeir rétt undir 10 Evrur (=1.600 krónur). Þar sem að ég var að leita mér að nýrri tónlist til að hlusta á (meðan ég er að teikna myndasögur) þá ætlaði ég að kaupa einhvern disk. Ég endaði á því að kaupa 7 diska fyrir samtals 70 Evrur (= 11.200 krónur). Ef diskarnir hefðu verið á sínu venjulega verði þá hefði ég ekki keypt nema tvo, sem hefðu þá kostað 30-36 Evrur. Þeir diskar sem að ég keypti vora allt diskar sem ég hafði áhuga á að heyra. Það var enginn diskur sem ég keypti af því að hann kostaði svo lítið því 10 Evrur (=1.600 krónur) finnst mér of mikið fyrir svoleiðis disk (þá þarf diskurinn að vera vel innan við 5 Evrur (= 800 krónur)).

Verðið hefur því talsverð áhrif á það hvort maður kaupi hlutinn eða ekki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband