31.12.2013 | 11:45
Íslenskar myndasögur 2013
Að venju við áramót er ekki annað en að líta um öxl og skoða hvað hefur verið gefið út af íslenskum myndasögum á þessu ári (2013). Eins og hefur verið síðast liðin áratug er því miður ekki um margar myndasögur og hægt að telja myndasögurnar á fingrum annarrar handar. Ef mér hefur yfirsést einhverjar myndasögur þá mun ég glaður leiðrétta og bæta við svo endilega látið mig vita.
Að þessu sinni voru það gamlir og þekktir íslenskir myndasögugerðamenn sem að gáfu út myndasögur.

Hugleikur Dagsson ásamt Rán Flygenring gáfu út bókina Endir II: Ógæfa. En þar er um að ræða sjálfstætt framhald af bók Hugleiks síðasta árs Opinberunin. Að þessu sinni fer fólk að éta hvort annað þegar það er á djammi í Reykjavík. Ógæfan er saga um ást, ölæði og uppvakninga.

Bjarni Hinriksson gaf út bókina Skugginn af sjálfum mér. Þetta er þriðja bók Bjarna en bókin er sambland af myndasögu og myndskreyttum texta og segir frá Kolbeinni Hálfdánarsyni myndasöguteiknara og lífi hans. Bjarni notar ljósmyndir í myndasögusköpun sinni sem hann breytir og togar á alla vegu til að skapa skáldsöguheim sinn.
Hugleikur hélt myndasögusamkeppni fyrir Ókeypis myndasögudaginn á Íslandi eins og hann hefur gert undanfarin ár og gaf í kjölfarið út þriðja tölublað af Ókeipiss.

Það komu út þrjú blöð af NeóBleki á árinu. Númer 21, 22 og 23. Þar var að finna þýddu frönsku myndasögurnar Gátan um Jötuninn, Aldebaran, Tímaflakkararnir, 3. Testamentið og Skvísur. Einnig var að finna nokkrar sögur eftir Íslendinga: Jan Pozok, Inga Jensson, Pál Ólafsson og Stefán Ljósbrá.
Ellefta tölublað GISP! blað var gefið út í sumar og í þessu blaði áttu Bjarna Hinriksson, Halldór Baldursson, Jóhann Ludwig Torfason, Þorra Hringsson, Sigga Björg Sigurðardóttir, Hugleikur Dagsson, Lilja Hlín Pétursdóttir og Lóa Hjálmtýsdóttir efni í blaðinu. Það eru 22 ár síðan að fyrsta GISP! blaðið kom út.

Morgunroðinn sf. gaf út bókina

Manga Messías en þar setur Koyumi Shinazowa sögu Jesús í teiknimyndaform. Það hafa ekki komið út margar japanskar myndasögur (Manga) á íslensku, svo að þetta er kærkomin viðbót í myndasöguflóruna.
Iðunn/Forlagið endurútgaf tvær Tinna-bækur: Blái lótusinn og Vindlar faraós. Alls er þá búið að endurútgefa tíu Tinna bækur.

Iðunn/Forlagið endurútgaf svo fjórðu bókina í Goðheima seríu Peter Madsen og ber sú fjórða nafnið Sagan um Kark. En þar segir af Loka, sem tekur að sér jötunbarnið Kark og vandræðin sem því fylgja meðal goðanna.
Ég á svo sem til að gleyma því en Edda Útgáfa gefur svo út Andrés Önd (52 tölublöð) og Syrpuna (13 bækur) á íslensku og hefur gert það undanfarin ár (og áratugi, ef út í það er farið).
Þá veit ég ekki betur en að íslensk myndasöguútgáfa árið 2013 sé upptalin. Hvað íslenskar myndasögur varðar, þá verður árið að teljast rólegt en engu að síður er verið að gefa út íslenskar myndasögur. Útgáfa þýddra myndasagna heldur áfram að aukast, rólega en á vonandi eftir að verða fastur liður í bókaútgáfu hér á Íslandi. Það verður spennandi að sjá hvað árið 2014 býður uppá.
Flokkur: Menning og listir | Breytt 17.1.2014 kl. 13:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.