Barbara eftir Osamu Tezuka

Barbara forsidaEin af þeim myndasögum sem ég hef verið að lesa að undanförnu er Barbara eftir Osamu Tezuka í þýskri þýðingu. Það er forlagið Verlag Schreiber&Leser sem að gefur myndasöguna út í tveimur bindum, hvort um sig sirka 230 blaðsíður. Osamu Tazuka er einn af merkilegustu mönnum í sögu myndasögunnar, sá sem lagði grunninn að stöðu japanskrar myndasagna eða það sem við köllum Manga hér á vesturlöndunum, svo og japönskum teiknimyndum eða Animie. Sem dæmi um sérstöðu Osamu þegar hann var að teikna myndasöguna Barbara á árunum 1973-74, var hann að teikna 4 myndasögur sem að komu út vikulega (hver myndasaga sirka 18 blaðsíður), eina sem kom út hálfsmánaðarlega (m.a. ein af hans þekktustu sögum Black Jack) og svo nokkrar sem að komu út á þriggja mánaða fresti, plús eina og eina stutta myndasögu sem að voru gefnar samhliða út!

Ég hef lesið nokkrar myndasögur eftir hann: Apollo's Song, Kirihito og er að lesa Buddha. Apollo's Song (endurfæðing og sálarfélaga) og Kirihito (læknaþrillir) fannst mér báðar mjög góðar og Barbara fellur á sömu hillu. Allar þrjár verða að teljast myndasögur fyrir fullorðna þar sem viðfangsefnið myndi líklegast ekki teljast við hæfi barna í dag.

Barbara fjallar um vinsælan rithöfund, Yosuke Mikura, og samband hans við flækingsstúlku, Barböru, sem að á við áfengisvandamál að stríða. Frásögn Osamu er mjög góð, maður hrífst með frásögninni og hefur áhuga á því sem að gerist næst þó að ekki sé um að ræða neinn hasar og stundum getur sagan verið mjög fyndinn. Osamu gerir að því skónna að Barbara sé músa (listgyðja). Það er hvergi sagt en hún er dóttir Mnemosyne, gríska gyðja minninga. Mnemosyne og Seifur eignuðust dætur eða músur sem að hver fyrir sig tengjast grein innan lista. Barbara virðist því vera músa andgiftar, því þeir listamenn sem að hún er hjá eru mjög sköpunarglaðir og gengur vel. Það á einnig um Mikura, þegar Barbara er hjá honum, gengur honum vel en þegar hún er færri er hann með ritstíflu. Í gegnum Barböru upplifir Mikura ýmislegt furðulegt og þegar líður fer á söguna er hann vissum að hún sé norn.

sida úr BarböruStrax í byrjun er ljóst að Mikura virðist ekki vera með öllu mjalla, hvort það er út af vímu af völdum fíknaefna eða áfengis, eða hvort að hann sé ekki heill á geði, kemur aldrei fram. Sem dæmi í upphafi sögunnar þá verður hann hrifinn af afgreiðslustúlku í fatabúð þar sem hann er að kaupa gjöf handa Barböru. Þegar hann kemur heim þá hringir hann í búðina til að spyrja hvað afgreiðsludaman heiti en verslunarstjórinn kannast ekki við neina afgreiðsludömu, sem passar við lýsinguna. Þegar Mikura ætlar svo að láta Barböru fá gjöfina þá er pokann með gjöfinni hvergi að finna og grunar Mikura Barböru um að hafa stolið pokanum og láta eins og hún viti ekkert. Daginn eftir fer Mikura í fatabúðina og hittir afgreiðsludömuna og jú hann hafði gleymt gjöfinni í búðinni. Þegar hann kemur heim er hann þó aftur án gjafarinnar. Hann býður afgreiðsludömunni heim til sín kvöldið eftir og þegar leikar standa sem hæst þá kemur Barbara inn og þrífur afgreiðsludömuna í burtu og brýtur hana í sundur og þá kemur í ljós að afgreiðsludaman er gína.  

Teiknistíllinn passar mjög vel við söguna, sem stundum getur verið nokkuð súrrealísk, sem gerir hana forvitnilega. Línurnar, t.d. húsa eða vega, er því ekki alltaf beinar. Teikningarnar eru svart-hvítar.

Myndasagan er hin besta skemmtun og fyrir þá sem vilja lesa eitthvað eftir Osamu Tezuka og vita ekki hvar þeir eiga að byrja, get ég ráðlagt þessa bók svo og þeim sem vilja einfaldlega lesa góða myndasögu sem höfðar til fullorðna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband