Grískar myndasögur

Í október á síðasta ári fór ég stutta ferð til Aþenu í Grikklandi. Á ráfi um hverfi Aþenu rakst ég á myndasögubúð og ákvað að líta þar inn. Sem myndasöguáhugamaður þá finnst mér gaman að sjá hvernig málum er háttað hjá öðrum þjóðum hvað myndasögur varðar. Sem dæmi, þá er ekki hægt að segja að myndasögur séu hátt metnar á Íslandi þó getum við státað af einni búð, Nexus, sem að sérhæfir sig í sölu á myndasögum ásamt, vísinda- og ævintýrasögum, DVD, leikjum svo og hlutum tengndum hlutverkaleikjum (Role Play) og Warhammer. Þar sem ég bý núna í Karlsruhe er því svipað farið. Eftir hrun þá er ein búð svipuð Nexus og þegar ég bjó í Vín, var svipað uppá teningnum. Þessar búðir eiga það einnig sameiginlegt að vera ekki í aðal verslunargötum en þó í nánd við miðbæinn. Þannig var það með þessa myndasögubúð í Aþenu. Hún var talsvert í útjaðri miðbæjarins og ég rakst á hana einungis af því að þetta var í leiðinni frá hótelinu þar sem ég gisti í átt að miðbænum, þ.e. í átt að Akrapolishæðinni.

ClipArt myndasögubúðin í Aþenu

Búðin bar nafnið Clip Art og fyrir framan innganginn stóð "stytta" af rómverja úr sögum Ástríks. Það kom mér svo sem ekki á óvart að ég þyrfti að ganga niður í kjallara en þegar þangað var komið var stærð búðarinnar á stærð við Nexus og ef eitthvað var þá virtust myndasögur vera á undanhaldi. Mest var um leikföng eða mynjagripi tengda myndasögum og svo ýmislegt tengdu hlutverkaleikjum. Í einu horni búðarinnar var svo hægt að finna myndasögur. Utan við afgreiðslustúlkuna þá var ekki hræða í búðinni en ég veit ekki hvort ástæðan fyrir því væri að ég var í búðinni á þriðjudegi rétt eftir hádegi. Þegar afgreiðslustúlkan tók eftir að ég var útlendingur þá benti hún mér á hasarblöðin frá Bandaríkjunum sem voru á ensku. Ég hafði nú engan áhuga á hasarblöðunum, þar sem að ég get fengið þau nánast hvar sem er og spurði því argreiðslustúlkuna hvort það væru ekki til grískar myndasögur eftir grikkja. Þar vandaðist málið og úrvalið snar minnkaði.

Hún benti mér á myndasöguna Love's Labour's Lost eftir Arkas sem er einn af vinsælustu myndasöguhöfunum í Grikklandi í dag en hún var á ensku, svo voru tvær aðrar sem að hún benti mér á sem voru á grísku, ég ákvað að kaupa aðra bókina. Þetta kom mér að vissu leita á óvart því að skömmu áður en að ég fór til Grikklands hafði ég lesið myndasöguna Logicomix eftir grikkjana Apostolos Doxiadis, Christos Papadimitriou og teiknað af Alecos Papadatos í þýskri þýðingu en það virtist ekki vera að hróður hennar sé mikill í heimalandi þeirra. Þó það sé erfitt að fullyrða eitthvað um það af þessari stuttu heimsókn minni. Ég veit að sú bók kom út haustið 2008 í Grikklandi þegar efnahagskerfið byrjaði að hrynja þar eins og á Íslandi. Ég mæli með þeirri myndasögu fyrir alla þá sem hafa gaman af að lesa góða myndasögu og ævisögu Bertrand Russell, sem einn af brautryðjendum í nútíma rökræði.

Love's Labour's Lost eftir Arkas fjallar um tvo fugla, faðir og son, þar sem mamman hefur sagt skilið við þá. Þetta eru stuttar, oftast 4 ramma, sögur sem segja brandara í stíl við myndasögur í dagblöðunum.

Seinni myndasagan sem ég keypti er á grísku og er með nokkrar sturrar sögur sem fjalla um mellu og daglegt líf hennar á gamansaman hátt en þar sem að grísku kunnátta mín er sama og sem engin þá skil ég ekki margar sögurnar, þrátt fyrir myndirnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband