Comic-Salon 2010 - myndasöguhátíðin í Þýskalandi

Þessi helgina, eða frá 3. júní til 6. júní, stóð yfir einn stærsti viðburður í myndasöguheiminum á þýskri tungu: alþjóðlegi Comic-Salon í Erlangen. Þetta er í 14. skipti sem að þessi viðburður á sér stað en hann var fyrst haldinn 1984 fyrir tilstillan hópsins Interessenverband Comic, Cartoon, Illustration und Trickfilm e.V. (skammstafað ICOM) sem er félag áhugamanna um myndasögur, skopmyndir, myndskreytingar og hreyfimyndir í Þýskalandi.

Inngangur Comic-Salon 2010

Viðburðurinn samanstendur af ýmsum sýningum, mörkuðum, atburðum eins og afhendingu þýsku myndasöguverðlaunanna Max und Moritz Preis, búningasamkeppni, kynningum, viðtölum, eiginhandaáritunum listamanna svo að eitthvað sé nú nefnd (og einhverju hef ég örugglega gleymt). Dagsmiði kostar 9 Evrur og hægt er að kaupa miða fyrir alla fjóra dagana á 24 Evrur.

Við félagarnir ákváðum að fara á föstudeginum (4. júní) og skoða herlegheitin. Erlangen er lítill bær á þýskan mælikvarða rétt yfir 100 þúsund íbúar. Bærinn er staddur skammt fyrir norðan Nürnberg í Bayern héraðinu. Miðpunktur myndasöguviðburðarins er kaupstefnan/messan í Ráðstefnuhúsinu Heinrich-Lades-Halle sem er við ráðhús bæjarins. Þar hafa flest þýsk forlög, útgáfufyrirtæki, stór og smá, svo og félög, skólar og áhugamannahópar sýna bása og í ár voru í kringum 130 þátttakendur. Flest forlög og útgáfufyrirtæki sýna og selja sýnar vörur, auk þess að þeir listamenn og myndasögugerðar menn sem að eru á þeirra snærum koma til að árita og voru yfir 300 listamenn sem komu til að árita.

Mest áberandi eru að sjálfsögðu stóru forlögin og útgáfufyrirtækin og hér í Þýskalandi eru það:

  • - Carlsen Comics, sem að gefur út frankó-belgískar myndasögur eins og t.d. Viggó Viðudan, Sval og Valur, Tinna, og svo manga Naruto, One Piece, Dragon Ball og Akira.
  • - Panini Comics, sem að gefur að mestu út bandarísku ofurhetju myndasögurnar, t.d. Spider-Man, Batman, Superman, X-Men, Iron Man. Þeir gefa einnig út manga eins og Berserk, Hellsing, Fullmetal Alchemist en þeir hafa átt erfitt með að fóta sig á þeim markaði.
  • - Ehapa & Egomont, sem að gefa út Andrés Önd, Ástrík, Lukku Láka, Blue Berry, svo og manga eins og Detektive Conan (Case Closed), Love Hina, Inu Yasha og Biomega.

Eitt af minni forlögunum sem að var einnig áberandi var Splitter Verlag sem að hefur verið að gefa út frankó-belgískar myndasögur eins og Siegfried, Sinbad, Comanche og Morea.

Minni forlögin hafa auðvitað eitthvað minni þekktari seríur og flestir af þeim þekktari þýsku myndasögulistamönnum eru á samningi hjá stærri forlögunum, t.d. Isabel Kreitz og Flix, þó Ralf König sé hjá eiginforlagi (Rowohlt Verlag).

Þó að stærstu forlögin hafi mesta úrvalið þá hafa litlu forlögin mjög áhugavert efni að bjóða og auðveldara að komast nær þeim sem á bakvið myndasögurnar gera og jafnvel að sjá upprunalega teikningarnar af myndasögunum, sem mér fannst einkar áhugavert þar sem ég er sjálfur að reyna að teikna myndasögur. Gegn því að kaupa myndasögu þá gat maður fengið áritun frá höfundum myndasögunnar og teiknararnir gáfu sér tíma til þess að teikna mynd tengda myndasögunni í keypta eintakið, eða í sérstaka bók, sem að sumir höfðu meðferðis.

 Myndasögu höfundarnir Gloris og Dellac árita myndasögu sína

Nokkrar sýningar voru á nokkrum stöðum í borginni en við heldum þó okkur bara við sýningarnar sem að voru ráðstefnuhúsinu. Þar voru í boði sýning tengd myndasögum í blöðum og hluti af þeirri sýningu var tileinkaður Smáfólkinu sem að heldur uppá 60 ára afmæli sitt á þessu ári. Á þessari sýningu mátti sjá upprunulegu teikningarnar af nokkrum myndasögunum. Önnur sýning af svipuðum toga, var Öld myndasögunnar, þar sem farið var í gegnum sögu myndasögunnar í tímaritum og blöðum frá því að hún birtist fyrst í bandaríkjunum, en á þeirri sýningu mátti sjá Krazy Kat, Tarzan, Flash Gordon, Little Nemo, Prins Valiant, Ljóska og Dick Tracy.

Nokkur af nýjustu verkum eftir ítalska myndasöguhöfundinn Milo Manara voru til sýnis undir yfirskriftinni Ferðalag í ævintýrið. Milo Manara gerði þó garðinn frægan í bandarískum myndasögum þegar hann teiknaði Sandman eftir sögu Gaiman.

Önnur mjög áhugaverð sýning var Sex teiknarar - einn Höfundur, þar sem að sex teiknarar gerðu myndasögur eftir sögum Peer Meter. Teiknararnir voru Barbara Yelin, Isabel Kreitz, David von Bassewitz, Nicola Maier-Reimer og Julia Briemle. Þar var hægt að sjá hvernig hver teiknari vann sína myndasögu út frá sögu Peer, allt frá fyrstu drögum og teikningum sögunnar til endanlegrar útgáfu.

Síðasta sýningin sem að við skoðuðum var Zieh Fremder! - Die ewige Faszination Western (ísl. Gríptu til vopna, ókunnugur - hinir eilífu töfrar Vestranna) en þar mátti sjá upprunalegu teikningar meistara á borð við Jean Giraud/Mobius, Jijé, Jean-Michel Charlier, Hermann, Francois Boucq, Gilles Mezzomo og Patrick Prugne. Þessar teikningar voru töfrandi þar sem að þær voru allar tússaðar, sem er því miður að verða sjaldnar í myndasögubransanum í dag (sem dæmi, þá tússaði enginn teiknari af teiknurunum sex í sýningunni Sex teiknarar - einn Höfundur).

Að skoða verk meistaranna

Alla daganna er dagskrá, þar sem að t.d. er að finna fyrirlestra, viðtöl og umræðu á sviði en mér gafst þó ekki tími til þess að vera viðstaddur eitthvað að því þennan eina dag sem að við vorum. Í þessari stuttu samantekt er auðvitað farið hratt yfir en ég vona að hún gefi smá innsýn inní þennan viðburð. Eitt er víst að fyrir áhugamann eins og mig þá er þetta ekki ósvipað og fyrir krakka að fara í tívolí eða Disney-Land.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband