Frændur og frænkur í Andrési Önd

Í síðustu færslu skrifaði ég um hinn 75 ára gamla Andrés Önd og þar sem Andrés er eina myndasagan sem að kemur reglulega út á íslensku eins og er þá er kannski ekki úr vegi að bæta við annarri færslu tengda honum. Andrés Önd kom út á íslensku um það leiti sem að ég var að læra að lesa og átti ég honum að vissu leiti að þakka að leskunnáttu minni fór batnandi (og auðvitað mömmu sem að passaði að ég læsi reglulega heima fyrir hana). Veröld Andrésar var áhugaverð og eitt af því sem maður tók eftir var að frændur og frænkur komu óvenju oft fyrir og pabbar og mömmur svo til aldrei. Hjá Andrési bjuggu frændur hans Ripp, Rapp og Rupp. Hjá Mikka Mús þeir Mik og Mak. Jóakim Aðalönd var frændi Andrésar o.s.fr. En hvernig stendur á allri þessari frændsemi? Afhverju eru ekki til hefðbundin pabbi og mamma tengsl í Andarbæ?

Við þessum spurningum hef ég því miður ekkert rétt svar bara tilgátur þar sem að höfundarnir sjálfir hafa aldrei tjáð sig sjálfir um þetta mál. Ein tilgátan er að þegar Walt Disney og félagar voru að gera teiknimyndirnar um Mikka og Andrés þá voru þær hugsaðar sem fjölskylduskemmtun og Disney lagði áherslu á að aðalsögupersónur væru góð fyrirmynd. Þetta þýðir að ef t.d. Ripp, Rapp og Rupp væru synir Andrésar þá myndi stríðni þeirra í garð Andrésar ekki vera til fyrirmyndar fyrir krakkana sem að horfðu á. Önnur tilgáta tengist einnig því þjóðfélagi sem að persónurnar urðu til í. Á þeim tíma sem að Mikki og Andrés urðu til var ekki mikið um foreldra sem að höfðu skilið, einstæðar mæður eða feður eins og tíðkast í dag. Einstæð Önd með þrjá unga myndu vekja upp spurningar eins og með hverjum átti Andrés ungana og væri Andrésína tilbúin í að vera í ástarsambandi við slíkan gaur? Og þegar ungarnir væru ekki með Andrési hver hugsaði þá um þá? Þriðja tilgátan hefur nokkuð sameiginlegt með tilgátu tvö en það er að Disney hafi viljað forðast tabú málefni eins og kynlíf.

Seinni tíma höfundar hafa svo haldið við þessari venju og því er næstum án undantekninga bara frændur og frænkur í veröld Andrésar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband