Færsluflokkur: Myndasögur

Andrés Önd orðinn 75 ára

Andrés ÖndÍ fyrra hélt Mikki Mús uppá 80 ára afmæli sitt og núna í síðustu viku hélt félagi hans Andrés Önd uppá 75 ára afmæli sitt. Höfundar Andrésar Önd var Walt Disney og Dick Lundy. Donald Fountleroy Duck, eins og hann hét upphaflega, birtist fyrst í teiknimyndinni The wise little Hen 9. júní 1934. (Það ber að geta þess að árið 1934 starfaði Ubbe Iwerks (skapari Mikka Mús ásamt Walt Disney) ekki hjá Walt Disney, heldur hafði stofnað sitt eigið hreyfimyndastúdíó, hins vegar hefur Carls Bark ávalt skrifað Andrés Önd sem ein af sköpun Iwerks). Það skal þó ekki draga neitt úr þætti Walt Disney við sköpun Mikka eða Andrésar en þetta hafði Disney um tilurð Andrésar að segja: "Mikki hafði takmarkaða möguleika þar sem að aðdáendur hans höfðu gert hann að hinni fullkomnu fyrirmynd. Þegar Mikki braut þá ímynd, t.d. með því að segja ljótan brandara þá kvörtuðu þúsundir aðdáenda! Þess vegna vantaði okkur öðruvísi persónu, hinn óreiknanlega Andrés Önd. Þannig gátum við komið fjölmörgum hugmyndum okkar í framkvæmd sem að ekki voru leyfilegar með Mikka Mús. Andrés veltist lengi í huga mínum. Hann var persóna sem að gaf enga hugarró: reiðiköst hans, máttleysi hans gagnvart hversdagslegum hlutum, mótmæli hans þegar honum fannst á sjálfan sig hallað. Með augum Andrésar gátum við séð heiminn öðruvísi..."

Walt Disney við teikniborð sittAndrés Önd er í dag ein vinsælasta teiknimynda- og myndasögupersóna sem að er til. Við íslendingar kynntumst honum fyrst í gegnum myndasögublöð frá Bandaríkjunum sem að komu með bandaríska hernum og þeim myndasögublöðum sem að voru flutt inn eftir stríð. Seinna og sérstaklega eftir innleiðingu gjaldeyrishafta í kringum 1960 þá kom hann frá Danmörk. Andrés Önd fór síðan að tala Íslensku upp út árinu 1981 og gerir enn. Fyrstu Andrés blöðin voru gerð af danski fyrirmynd en í seinni tíð höfum við Íslendingar fengið að kynnast ítalska forminu undir nafninu Syrpa (í Ítalíu þekkt undir nafninu Topolino).

Fyrsta þátttaka Andrésar í myndasögum var árið 1934 í myndasögum dagblaðanna undir nafninu Silly Symphony eftir samnefndri teiknimynd (sem að stutt-teiknimyndin The wise little Hen var hluti af). Þessar myndasögur voru teiknaðar af Al Taliaferro og samdar af Ted Osborne. Árið 1936 fékk Andrés svo sýna eigin nýtt útlit og eigin teiknimynd og árið 1938 sýna eigin myndasögu.

Andrés Önd í gegnum tíðinaÁrið 1942 kom Andrés í myndasögublöðum útgefið af Western Publishing og teiknaði og samdi Charles Bark þessar sögur. Charles Barks er líklegast þekktasti höfundur Andrésar og sá sem að átti mestan þátt í þróun myndasögunnar. Andrés Önd varð vinsæll víða í Evrópu og hafa teiknarar í Hollandi, t.d. Dan Jippes, samið nokkuð af sögum og sérstaklega í Ítalíu þar sem talsvert af teiknurum hafa gert þekktar sögur um Andrés, má þar nefna Romano Scarpa og Giorgio Cavazzano, en þar er helst gerðar sögur af Ofur-Andrési. Sá sem hins vegar tekið við arfleið Charles Barks er Don Rosa.

En hvað er það sem að hefur gert Andrés Önd svona vinsælan. Flestir eru á því að það sé vegna þess hversu mannlegur hann er. Hann er latur, uppstökkur, afbrýðisamur, eigingjarn, sjálfselskur, einfaldur og þrjóskur. Hann hefur þá eiginleika sem að engin er tilbúinn að viðurkenna að hann hafi en gerir það að verkum að vissu leiti samsamar fólk sig með honum og getur því haft gaman af honum.


Myndasögublús

Titilsíða Vorblúss eftir Kristján JónÚtgáfa íslenskra myndasagna hefur ekki verið fyrirferðamikil síðustu ár og því er um að gera að skrifa um slíkan viðburð þegar hann á sér stað. Fyrsta íslenska myndasögubókin sem er gefin út á árinu 2009 (sem ég veit um, ef ég fer með rangt mál þá vinsamlegast hafið samband) er Vorblús eftir listamanninn Kristján Þór Guðnason. Bókin er 55 blaðsíður og inniheldur þrjár myndasögur: Vorblús, Dollý og ég, Vetrarverk. Ég reikna með að bókin sé gefin út í takmörkuðu upplagi en líklegast má nálgast eintök hjá höfundi ef að þau eru ekki lengur til í bókabúðum. Umbrot bókarinnar er ca A5 og eru allar eru allar myndirnar svart-hvítar, tússaðar með pensli.

Framsetning sögunnar á hverri síðu er einfalt með 6 myndum á hverri síðu sem eru nokkurn vegin allar jafn stórar. Þessi framsetning fellur mjög vel að teiknistíl Kristjáns en ég reikna með að hann hafi teiknað á A4 blöð og jafnvel beint með penslinum. Frásagnarmáti Kristjáns er ekki ósvipaður og fyrsta sagan sem að Hergé gerði um Tinna þar sem að tími er tekin í það að sýna ákveðna atburði, t.d. sjáum við í sögunni Vorblús, Nonna sjá manneskju við vatnið, á næstu mynd sjáum við að þetta er stelpa, á þriðju myndinni heilsast þau og á fjórðu og fimmtu mynd kynna þau sig. Þessi frásagnarmáti er sjaldséður í myndasögum nútímans hann var mun algengari fyrir 60 til 70 árum.

Brot úr sögunni VorblúsHvað efnistök varðar þá fjalla sögurnar allar um unglinga. Fyrstu tvær sögur fjall um Nonna, kynni hans af stelpum og draumum Nonna um mótorhjól til þess að verða flottur og kúl. Þriðja sagan fjallar um strák sem að verður yngri strák að bana. Umhverfi allra myndasagnanna er líklegast Ísland og í fyrstu tveim sögunum í kringum 1955-60 og ekki ólíklegt að umfjöllunarefnið sé tekið úr lífi Kristjáns sjálfs, ekki ósvipað og þær sjálfsævisögulegu myndasögur sem að hafa verið að komast í tísku í myndasöguheiminum síðustu 10 árin

Kristján Jón GuðnasonKristján er 66 ára og í kringum listamannaferil og myndasöguferil hans hafa ekki verið mikil læti. Hann gaf út fyrstu myndasögu bók sína, Óhugnarlega plánetan, árið 1993 og árið 2007 kom út bók hans Edensgarðurinn, auk þess hefur hann átt sögur í myndasögublaðinu Neo-Blek. Kristján útskrifaðist árið 1964 frá Handíða- og myndlistarskóla Íslands og árið 1967 frá Verks- og kunstindustriskole í Ósló í Noregi. Hann hefur haldið talsvert af myndlistarsýningum en hann hefur haldið stíl sínum í myndasögum sínum. Framtak hans er til fyrirmyndar þó að hann fái ekki sömu umfjöllun og ungir myndasögugerða menn eins og Hugleikur.

 


Köngulóarmaðurinn bjargar lífi stráks

SpidermannVenjuleg þá er myndasögupersóna einungis fær um að bjarga mannslífum í myndasögu eða kvikmyndum. Köngulóarmaðurinn, eða Spider-Man, hefur þó tekist að brjóta viðjar skáldskaparins og bjargað lífum í raunveruleikanum, en slíkt gerðist einmitt í Bangkok.

Átta ára einhverfur strákur í sérskóla varð allt í einu hræddur í kennslustund og flúði út á gluggasyllu opins glugga á þriðju hæð. Þar stóð hann og lét hvorki lögreglu né slökkvilið tala sig til um að koma af gluggasyllunni og inn. Það var ekki fyrr en að móðir hans nefndi að sonur hennar væri mikill aðdáandi Köngulóarmannsins að slökkviliðsmaðurinn Sonchai Yoosabai fékk hugmynd: hann hljóp niður á slökkvistöð og náði í Köngulóarmannsbúning sem að klæddist í og fór svo til stráksins. Vart hafði strákurinn séð Köngulóarmanninn en að hann steig niður af syllunni og hljóp brosandi til hetju sinnar.

 Upprunalegafréttin


Tinni 80 ára

Tinni hélt uppá sitt 80 ára afmæli 10. janúar síðast liðinn og þar sem að ég var ekki byrjaður að skrifa þetta blogg þá, er best að skrifa smá pistil til heiðurs Tinna.

Hergé við vinnu sína árið 1929Tinna, eða Tintin eins og hann heitir á frummálinu, er hugarsmíði belgans Georges Remis (1907-1983) betur þekktur sem Hergé (uppnefni út frá frönskum framburði á upphafstöfum nafna hans R.G.) og setti þann grunn sem að myndasögur, sem komu út í frönsku mælandi löndum, myndu byggjast á. Tinni er ein af vinsælustu evrópsku myndasögupersónum fyrr og síðar.

Það er kannski merkileg tilviljun að Walt Disney skapaði Mikka Mús bara nokkrum mánuðum áður (tek Walt Disney fyrir í öðrum pistill) og persónuleiki Tinna og Mikka eru mjög svipaðir osem g vinsældir þeirra. Hergé fylgist þó náið með aðferðum Bandaríkjamanna í myndasögum og kvikmyndum eins og hann segir í viðtali: "Almennt þá vita bandaríkjamenn hvernig á að segja sögu, jafnvel þó að hún sé algjör vitleysa. Ég held að þetta sé aðal lexían sem að ég hef lært af myndasögum og kvikmyndum frá Bandaríkjunum." Hergé tók einnig upp svipaðar vinnu aðferðir og Disney og byggði upp sitt eigið vinnustúdíó.

Fyrsta blaðsíðan af fyrsta ævintýri TinnaHergés byrjaði að starfa hjá dagblaðinu Le Vingtiéme Siécle árið 1925 og frá júlí árið 1926 teiknaði hann myndasögu sem hét Tator fyrir skátablaðið Le Boy-Scout Belge og eru þær myndasögur augljóslega forrennar Tinna. Árið 1928 tók hann við ritstjórns blaðsins Le petit Vingtiéme, sem var barnablað Le Vingtéme Siécle blaðsins og kem út vikulega á fimmtudögum. Til að byrja með teiknaði Hergé myndasögur við sögu eftir Amand de Smet, sem var ritstjóri íþróttahluta blaðsins, og þar birtist hundurinn Tobbi (Hérge gaf honum stelpu nafnið Milou, sem að var eftir stúlku sem að hann var yfir sig hrifin af meðan hann var í skóla) á undan Tinna í sögunni Flup, Nénesse, Poussette et Cochonnet. Þeir birtust síðan saman 10. janúar, 1929 í sögunni Les Aventuers de Tintin Reporter du petit vingieme au pays des Soviets eða í íslenskri þýðingu Tinni í Sovétríkjunum (kom út árið 2007 hjá Fjölva okkur Íslendingum til mikillar ánægju). Fyrsti ævintýri Tinna voru öll í svart/hvítu og til að byrja með var Tinni eitthvað minni og þykkari en hann síðar varð. Eftir síðari heimstyrjöld þá var Tinni gefinn út í lit og í endurgerði Hergé í lit allar sögurnar, sem að komið höfðu út fyrir stríð nema fyrstu sögu Tinna. Sumar endurgerði hann jafnvel aftur þá aðallega til þess að aðlaga að bandaríkja markaði.

Upprunalega útgáfan og endurgerð Hergé af Tinna í AmeríkuHelstu áhrifavaldar Hergé þegar hann var að byrja voru myndasögur frá Bandaríkjunum og er þar helst að nefna Bringing Up Father, sem fékk nafnið Gissur Gullrass á íslensku, eftir George MacManus.

Stíll Hergé hefur verið kallaður Ligne Clair (hreinar línur) og einkennist af myndum með einföldum línum, án skugga og flötum einföldum litum ásamt mjög nákvæmum bakgrunnum. Hergé teiknaði alveg frá upphafi mjög nákvæma bakgrunna og sjást þar áhrif George MacManus mjög vel, hinar skýru línur sem að hann varð svo þekktur fyrir þróðust og uppfrá sögunni Blái Lótusinn varð til sá Tinni sem að við þekkjum í dag, þar sem að Hergé var í mun að allt umhverfi og sögur, svo og pólitík væri sem nákvæmust. Ein af eftirminnilegusta persóna í sögum Tinna er án efa Kolbeinn Kafteinn en Tinni hitta hann fyrst í ævintýrum sínum með Krabbann með gylltu klærnar. Þýðingar á fúkyrðum Kolbeins eru einnig mjög skemmtilegar og hafa orðið mjög vinsælar.

Á íslensku hafa komið út 24 bækur með ævintýrum Tinna og kom sú fyrsta út árið 1971 Dularfulla stjarnan og átti blaðamaðurinn Loftur Guðmundsson heiðurinn af þýðingunum. Bækurnar voru svo endurútgefnar árið 2007 með nýrri stafagerð/textun.


Myndasögur í (kvik)myndum

Síðustu 10 árin hafa kvikmyndir byggðar á myndasögum verið mjög áberandi í banaríska kvikmyndaiðnaðinum og þetta ár er engin undantekning þar á. Í ár verða nokkrar af þeim sem að hafa haft mjög mikil áhrif á myndasöguheiminn sýndar í kvikmyndahúsunum. Datt því hug að skrifa smá pistill um þær helstu á þessu ári.

WatchmenWatchmen er fyrsta myndin sem að er til sýningar á þessu ári, var frumsýnd um síðustu helgi. Teiknimyndasagan er eftir Alan Moore sem er af þeim virtustu og vinsælustu höfundum í Bandaríkjunum og Bretlandi síðustu 40 árin og Watchmen, sem birtist fyrst sem sería, ein af hans vinsælustu bókum. Á síðustu tíu árum hafa nokkrar sögur eftir hann verið kvikmyndir, má þar nefna V for Vendetta (2005) eftir Wachowski bræðurna (Matrix) og Hugo Weaving og Natalie Portman í aðalhlutverkum, The League of Extraordinary Gentlemen (2003) með Sean O'Connory  og From hell (2001) með Johnny Depp. Alan Moore hefur þó reynt að halda sig eins mikið frá þeim kvikmyndum sem hafa verið gerðar eftir sögum hans og gengið svo langt að hann hefur viljað að nafn sitt yrði ekki birt á V for Vandetta og Watchmen.

Það eru rúm 10 ár síðan að ég las Watchmen í fyrsta skipti og fannst mér mikið til koma á þeim tíma og kannski ekki skrítið þegar tekið er tillit til þess sem að ég hafði lesið til þess tíma af myndasögum. Alan Moore og teiknarinn Dave Gibbons reyndu ýmislegt fyrir sér í þessari bók eins og t.d. að hafa kafla samhverfa, þ.e. fyrsti og síðasti ramminn líta nánast eins út, annar og næst síðasti ramminn líta svipað út og svo koll af kolli (kaflinn Fearful Symmetry) og þetta er langt frá því að geta talist barnabókmenntir enda höfðar myndasagan meira til eldri unglinga og fullorðinna. Vegna tilraunastarfsemi þeirra félaga var lengi vel talað um að þessi bók væri ókvikmyndaleg en leikstjórinn Zack Snyder, sem skaut upp á stjörnuhimininn með kvikmynd sinn byggða á myndasögunni 300, hefur tekist ágætlega til að koma sögunni á hvíta tjaldið. Hann heldur þó áfram á svipaðri braut í 300 með miklu ofbeldi og hægum senum og kynlífssenum, sem að allt hefði verið hægt að draga úr og myndin hefði frekar orðið betri.

Dragon BallDragon Ball: Evolution er mynd sem að verður sýnd um páskanna byggð á manga myndasögunni Dragan Ball eftir Akira Toriyama og var fyrst birt árið 1984 og gefin út til ársins 1995 en margar hliðarsögur og framhaldsögur hafa einnig verið gefnar út síðan þá. Dragon Ball er ein af vinsælustu manga myndasögum fyrr og síðar í Japan. Sagan er byggð á kínverskri þjóðsögu um apakonunginn og drekakristalkúlur en hefur verið færð í all nokkurn nýjan búning í höndum Toriyama. Við fyrstu sýn þá virðist myndin vera talsvert frábrugðin þó að söguþráðurinn sé svipaður.

WolferineX-Men Origins: Wolverine er líklegast sú mynd sem að verður aðsóknamest af þeim kvikmyndum sem að verða sýndar á þessu ári. Þeir þrjár X-Men myndir sem hafa verið sýndar á síðustu 10 árum hafa kynnt þessa persónu nógu vel. Myndasagan sem að var upphaflega búin til af þeim Stan Lee og Jack Kirby birtist fyrst árið 1963 en hefur í gegnum tíðina gengið í gegnum margar breytingar. Ólíkt Alan Moore hefur Stan Lee mun meira tekið þátt í kvikmyndum þeirra myndasagna sem að hann hefur átt þátt í að skapa og venjulega sést hann einu sinni í myndinni í einhverju litlu aukahlutverki (maðurinn með gráhárið og gleraugun). Báðir Stan Lee og Jack Kirby hafa sett sitt mark á myndasögur í Bandaríkjunum.

Astro BoyAstro Boy er teiknimynd sem sýnd verður með haustinu og er byggð á manga myndasögum Tezuka Osamu. Sagan fjallar um vélmennastrák sem að er búinn til af vísindamanni sem að vill ekki mikið með hann hafa. Sagan birtist á árunum 1952 til 1968 í Japan. Tezuka Osamu er einn af merkilegustu mönnum í sögu myndasögunnar og í raun bara sambærilegur við Hergé, höfund Tinna. Áhrif hans á myndasögur í Japan er ótrúlegur enda kemur ekki á óvart að hann sé kallaðaur faðir myndasögunnar í Japan. Astro boy er ein af vinsælustu og þekktustu verkum Tezeku Osamu. Reyndar er Tezuku Osama svo merkilegur að hann á skilið pistil einhvern tíman seinna.

 

Fyrir þá sem að hafa áhuga þá hef ég stofnað hóp áhugamanna um myndasögur á Facebook:

http://www.facebook.com/group.php?gid=62567771059#/group.php?gid=61221373803

Þar sem að ég hef ekki viljað vera að þvinga einn né neinn eða ýta einhverjum af mínum vinum í þennan hóp þá hef ég ekki verið að senda boð til minna vina um að slást í hópinn, þar sem ég hef frekar áhuga á að í hópnum sé fólk sem að hefur áhuga á myndasögum. Ef þú hefur áhuga (og ert á facebook) þá endilega komdu í hópinn og vonandi er hægt að gera hópinn virkann.


mbl.is Vakta toppinn vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband