9.3.2009 | 22:14
Myndasögur í (kvik)myndum
Síðustu 10 árin hafa kvikmyndir byggðar á myndasögum verið mjög áberandi í banaríska kvikmyndaiðnaðinum og þetta ár er engin undantekning þar á. Í ár verða nokkrar af þeim sem að hafa haft mjög mikil áhrif á myndasöguheiminn sýndar í kvikmyndahúsunum. Datt því hug að skrifa smá pistill um þær helstu á þessu ári.
Watchmen er fyrsta myndin sem að er til sýningar á þessu ári, var frumsýnd um síðustu helgi. Teiknimyndasagan er eftir Alan Moore sem er af þeim virtustu og vinsælustu höfundum í Bandaríkjunum og Bretlandi síðustu 40 árin og Watchmen, sem birtist fyrst sem sería, ein af hans vinsælustu bókum. Á síðustu tíu árum hafa nokkrar sögur eftir hann verið kvikmyndir, má þar nefna V for Vendetta (2005) eftir Wachowski bræðurna (Matrix) og Hugo Weaving og Natalie Portman í aðalhlutverkum, The League of Extraordinary Gentlemen (2003) með Sean O'Connory og From hell (2001) með Johnny Depp. Alan Moore hefur þó reynt að halda sig eins mikið frá þeim kvikmyndum sem hafa verið gerðar eftir sögum hans og gengið svo langt að hann hefur viljað að nafn sitt yrði ekki birt á V for Vandetta og Watchmen.
Það eru rúm 10 ár síðan að ég las Watchmen í fyrsta skipti og fannst mér mikið til koma á þeim tíma og kannski ekki skrítið þegar tekið er tillit til þess sem að ég hafði lesið til þess tíma af myndasögum. Alan Moore og teiknarinn Dave Gibbons reyndu ýmislegt fyrir sér í þessari bók eins og t.d. að hafa kafla samhverfa, þ.e. fyrsti og síðasti ramminn líta nánast eins út, annar og næst síðasti ramminn líta svipað út og svo koll af kolli (kaflinn Fearful Symmetry) og þetta er langt frá því að geta talist barnabókmenntir enda höfðar myndasagan meira til eldri unglinga og fullorðinna. Vegna tilraunastarfsemi þeirra félaga var lengi vel talað um að þessi bók væri ókvikmyndaleg en leikstjórinn Zack Snyder, sem skaut upp á stjörnuhimininn með kvikmynd sinn byggða á myndasögunni 300, hefur tekist ágætlega til að koma sögunni á hvíta tjaldið. Hann heldur þó áfram á svipaðri braut í 300 með miklu ofbeldi og hægum senum og kynlífssenum, sem að allt hefði verið hægt að draga úr og myndin hefði frekar orðið betri.
Dragon Ball: Evolution er mynd sem að verður sýnd um páskanna byggð á manga myndasögunni Dragan Ball eftir Akira Toriyama og var fyrst birt árið 1984 og gefin út til ársins 1995 en margar hliðarsögur og framhaldsögur hafa einnig verið gefnar út síðan þá. Dragon Ball er ein af vinsælustu manga myndasögum fyrr og síðar í Japan. Sagan er byggð á kínverskri þjóðsögu um apakonunginn og drekakristalkúlur en hefur verið færð í all nokkurn nýjan búning í höndum Toriyama. Við fyrstu sýn þá virðist myndin vera talsvert frábrugðin þó að söguþráðurinn sé svipaður.
X-Men Origins: Wolverine er líklegast sú mynd sem að verður aðsóknamest af þeim kvikmyndum sem að verða sýndar á þessu ári. Þeir þrjár X-Men myndir sem hafa verið sýndar á síðustu 10 árum hafa kynnt þessa persónu nógu vel. Myndasagan sem að var upphaflega búin til af þeim Stan Lee og Jack Kirby birtist fyrst árið 1963 en hefur í gegnum tíðina gengið í gegnum margar breytingar. Ólíkt Alan Moore hefur Stan Lee mun meira tekið þátt í kvikmyndum þeirra myndasagna sem að hann hefur átt þátt í að skapa og venjulega sést hann einu sinni í myndinni í einhverju litlu aukahlutverki (maðurinn með gráhárið og gleraugun). Báðir Stan Lee og Jack Kirby hafa sett sitt mark á myndasögur í Bandaríkjunum.
Astro Boy er teiknimynd sem sýnd verður með haustinu og er byggð á manga myndasögum Tezuka Osamu. Sagan fjallar um vélmennastrák sem að er búinn til af vísindamanni sem að vill ekki mikið með hann hafa. Sagan birtist á árunum 1952 til 1968 í Japan. Tezuka Osamu er einn af merkilegustu mönnum í sögu myndasögunnar og í raun bara sambærilegur við Hergé, höfund Tinna. Áhrif hans á myndasögur í Japan er ótrúlegur enda kemur ekki á óvart að hann sé kallaðaur faðir myndasögunnar í Japan. Astro boy er ein af vinsælustu og þekktustu verkum Tezeku Osamu. Reyndar er Tezuku Osama svo merkilegur að hann á skilið pistil einhvern tíman seinna.
Fyrir þá sem að hafa áhuga þá hef ég stofnað hóp áhugamanna um myndasögur á Facebook:
http://www.facebook.com/group.php?gid=62567771059#/group.php?gid=61221373803
Þar sem að ég hef ekki viljað vera að þvinga einn né neinn eða ýta einhverjum af mínum vinum í þennan hóp þá hef ég ekki verið að senda boð til minna vina um að slást í hópinn, þar sem ég hef frekar áhuga á að í hópnum sé fólk sem að hefur áhuga á myndasögum. Ef þú hefur áhuga (og ert á facebook) þá endilega komdu í hópinn og vonandi er hægt að gera hópinn virkann.
Vakta toppinn vestanhafs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Myndasögur | Breytt 23.3.2009 kl. 21:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.