Klisjur og staðalmyndir

Einhver man kannski eftir frétt fyrr á þessu ári um nýja útgáfu af sögu Marks Twains, Stikkilsberja Finni, þar sem orðið negri (e. nigger) var skip út fyrir þræll. Í mínum huga voru þetta sorgar fréttir því þar hafa þeir sem ákváðu að gera þetta gjörsamlega misskilið sögu Twains og þann boðskap sem í henni er.

Þetta lýsir einnig öðru vandamáli sem að er á a.m.k. okkar vestræna þjóðfélagi: við lokum augunum fyrir því sem er óþægilegt og látum eins og það sé ekki til. Kannski líður einhverjum betur vitandi það að barnið hans þurfi ekki að lesa um negrann í Stikkilsberja Finni en vandamálið hverfur ekki þrátt fyrir það. Til þess að útskýra þetta aðeins betur. Fyrir tveimur árum gekk þýskur unglingur berserk í skóla sínum, með skotvopn og skaut skólasystkini sín og kennara. Strákurinn virtist vera ósköp venjulegur unglingur, sem átti sín vandamál að fá viðurkenningu jafnaldra sinna. Einn blóraböggull sem fundinn var fyrir þessari hegðun stráksins voru tölvuleikir.

Tölvuleikir eins og t.d. Doom, sem að snúast um skjóta andstæðinginn. Og þeir hópar sem vilja endilega láta banna slíka leiki gátu ekki annað en hoppað af kæti yfir mjög góðu dæmi málstað þeirra til stuðnings. En t.d. sú staðreynd hversu auðveldlega strákurinn komst í skotvopn fékk minni athygli. Og enn síður virtist vera áhugi fyrir því að skilja af hverju berserksgangur gerist af og til meðal ungmenna (og ekki bara meðan ungmenna) í okkar vestræna þjóðfélagi. Afhverju hafa ungir strákar svona mikinn áhuga á ofbeldi? Og er það nokkuð einskorðað við unga stráka? Í dag er stærsti markaður kvikmynda unglingsstrákar. Ef að skoðað er hvers konar myndir eru í boði þá eru fæstar eitthvað í stíl við Stikkilsberja Finn. Og hver er ástæðan fyrir þeirri tegund af kvikmyndum sem yfirtaka markaðinn? Eru kvikmyndirnar mótaðar eftir smekk unglinganna eða mótast smekkur unglinganna af kvikmyndunum?

Við þessum spurningum er ekkert klárt svar til og þær láta raunverulega vandamálið líta mun einfaldara út en það er. Ég hef t.d. spurt mig oft að því hversu mikil áhrif skoðanakannanir hafa á skoðanir fólks. Fyrir kosningar flagga fjölmiðlar hinum og þessum skoðunarkönnunum sem segja skoðun "fólksins". Í þessum skoðunarkönnunum er bara lítill hluti fólks spurður og þar af er ákveðinn hluti óákveðinn. Þær skoðanakannanir sem eru gerðar stuttu fyrir kosningar segja venjulega fyrir úrslit kosninganna í grófum dráttum. Hvað myndi hins vegar gerast ef að fjölmiðlar tækju sig saman og myndu hagræða skoðunarkönnununum, myndu úrslit kosninganna fylgja?

Nú kann einhver að spyrja, hvað kemur þetta alls saman myndasögum við? Ég viðurkenni að ég er á mörkum þess að fara út fyrir efnið en myndasögur urðu á sínum tíma fyrir barðinu á ritskoðun vegna ofbeldis sem að ákveðin blöð innihéldu og voru mjög vinsæl meðal unglinga. Þetta varð til þess að myndasögur í Bandaríkjunum þroskuðust á mjög einhæfan veg næstu 50 árin og það er kannski núna á síðustu 10 árum sem að það hefur orðið breyting þar á. Stærsti markaðshópur myndasagna eru unglingsstrákar, þar á eftir koma krakkar. Myndasögur ættu því að vera kallaðar unglingssögur sem er að sjálfsögðu ekki frekar rétt en að kvikmyndir séu bara fyrir unglinga.

Og Stikkilsberja Finnur? Í Bandaríkjunum á síðustu árum hafa myndasöguhöfundar eins og Hergé og Will Eisner verið sagðir með kynþáttafordóma. Þessir menn liggja vel við höggi þar sem báðir eru látnir og geta því ekki varið sig. Og því miður fyrir þá sem vilja láta vandamálin bara hverfa þá er ekki eins auðvelt að teikna þessi vandamál úr myndasögum þeirra.

Eftir að hafa lesið umræðuna sem hefur t.d. verið á netinu um þessi mál hefur mér fundist stór hluti umræðunnar snúast um þrennt: það er verið að dæma verk þeirra út frá nútímahugsun, fólk hefur ekki lesið verk þeirra og fólk hefur ósköp virðist ekki hafa skilning á myndasögu sem tjáningarformi. Eins og með orðið negri eða nigger, þá var það ekki neikvætt orð en það varð neikvætt orð og er í dag orðið tabú í Bandaríkjunum. Skáldverk, t.d. myndasögur, ritaðar skáldsögur og kvikmyndir, nota mjög oft staðalímyndir (e. stereotypes). Staðalímyndir eru í flestum tilvikum notaðar fyrir aukapersónur sem eru hluti af umhverfi sögunnar, t.d. lögregluþjónn, leigubílstjóri, þingmaður, Ítali, Þjóðverji. Ástæðan er sú að þetta fólk gegnir einhverju ákveðnu hlutverki í sögunni á ákveðnum tíma og svo sjáum við það ekki aftur. Klisjur eru nátengdar. Þjóðverjar eru skipulagðir, stundvísir og húmorslausir. Ítalir eru óstundvísir og skipulagslausir. Með því að nefna ákveðna klisju eða staðalmynd þá þarf ekki að eyða plássi eða tíma í að útskýra það nánar. Staðalímyndir og oft á tíðum koma klisjur frá þjóðfélagi, eins rangar og þær kunna að vera. Afhverju ættu þjóðverjar að vera eitthvað skipulagðari en Ítalar? Staðalímyndir þekkja hins vegar flestir í þjóðfélaginu og þess vegna virka þær mjög vel.

Í myndasögum eru staðalímyndir meira áberandi en í rituðum texta, þar sem að við sjáum þær sem mynd. Oftar en ekki eru staðalímyndir og klisjur notaðar til þess að fá fólk til að hlæja. Og myndasögur snúast um að koma upplýsingum á sem skilvirkastan hátt til lesandans. Þar má eiginlega segja að vandamál Hergé og Eisners liggja. Í sögum sínum um Spirit notaði hann negrann, Ebony White, sem fylginaut (e. sidekick). Hann var með þykkar varir og talið með suðuramerískum hreim og slangri.  Eisner fylgdi þarna eftir margtugginni klisju sem var í þjóðfélaginu. Ebony White persónan var hugsuð til að fá húmor í myndasöguna og var mjög þægileg persóna og einnig eina persónan sem hafði einhverja dýpt. Fyrir vikið var hann mjög vel séður af lesendum blaðsins. Þegar maður les söguna verður maður ekki var við fyrirlitningu frá Eisner til negra, heldur þvert á móti.

Jæja, nóg af þyngri pælingum og ég sem ætlaði að skrifa um eitthvað allt annað. Annars hefði Eisner orðið 94 ára í dag, ef einhver vill halda uppá það!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband