25.10.2009 | 13:09
Ástríkur 50 ára!
Það var 29. október 1959 sem að fyrsta sagan af Ástríki og félögum birtist í tímaritinu Pilote. Sagan segir að höfundarnir, Albert Uderzo (f. 1927) og René Goscinny (f. 1926, d. 1977), hafi bara þurft korter til þess að leggja grunnin að heimi Ástríks á heitum sólardegi í ágústmánuði það sama ár en reyndar voru þeir búnir að brjótaheilan allan daginn áður en að þeim datt í hug að skrifa um Galla eða eins og Uderzo í ævisögu sinni (reyndar einni af mörgum) skrifar:
"Nákvæma dagsetningu þessarar tilurðar gátum við ekki seinna sagt til um. Og af hverju hefðum við svo sem átt að muna hana? Við gátum bara munað eftir því að það var mjög heitt. Og því hlýtur þetta að hafa verið annaðhvort í júlí eða ágúst, nokkurn vegin tveimur mánuðum áður en útgáfa stóð til. Ada (eiginkona Uderzo) hafði fært okkur Pastis (svala drykkur) og ég verð því miður að viðurkenna að við reyktum óheyrilega mikið, líklegast í þeirri trú að það myndi örva heilasellurnar. Dóttir okkar Sylvia var rétt orðin þriggja ára og blaðraði sér til skemmtunar í herbergi sínu. Móðir hennar sussaði á hana svo að báðir snillingarnir væru nú ekki truflaðir við vinnu sína. René, sem að gat ekki hangið svona í tómu lofti, byrjaði einhvern tíman að reyna á mig með því að spyrja mig:
- Nefndu mér mikilvægustu tímabilin í franskri sögu.
- Nú, hmm, við höfum forsöguna...
- Nei, það er búið að gera henni skil.
- Þá Gallíu og Galla.
Þá stökk René á fætur: Galla! Afhverju ekki? Við værum þeir fyrstu sem að myndum túlka þá á gamansaman hátt!
Sem betur feru vissum við ekki að það var ekki reyndin. Það varð okkur síðar kunnugt."
Fyrirmyndina af nöfnum persónanna með síðasta hlutann -rix (Asterix, Obelix, o.s.fr.) kom frá einum af leiðtogum Galla, Vercingetorix, en þessi ending þýðir kóngur í máli Kelta.
Árið 1961 birtist svo fyrsta albúmið með fyrstu sögunni í upplagi sem nam 6.000 eintökum. Þremur árum seinna var upplagið fyrir albúmið Ástríkur og rómverski flugumaðurinn tífalt eða um 60.000 eintök og þegar árið 1966 var upplag albúma orðið hundraðfalt og 1967 í um 1,2 milljónir eintaka. Þetta segir nokkuð um vinsældir Ástríks og félaga. Alls hafa komið út 33 albúm um Ástrík og félaga og síðasta albúmið, sem að kom út árið 2005, var í gefið út í upplagi með 2,7 milljónum eintaka. Ástríkur er orðin svo frægur að hann hefur jafnvel komist á frímerki. Nú í ár verður afmælisalbúm (albúm nr. 34) gefið út með smásögum um kappann.
Hvað er lykillinn að frægðar Ástríks er erfitt að segja en eitt er víst að húmorinn og sögurnar höfðu jafnt til ungra sem aldna. Og samvinna René Goscinny og Albert Uderzo var undirstaðan. Goscinny hefur skrifað fleiri þekkta titla eins og Lukku Láka ásamt Morris, Fláráð (Iznogoud) ásamt Jean Tabary og litli Nikulás, svo eitthvað sé nefnt af þeim verkum Goscinny sem Íslendingar hafa fengið að kynnast. Eftir að Goscinny lést árið 1977 þá reyndi Uderzo að halda áfram en erfitt var að fylla skarð Goscinny og sögurnar urðu því tilbreytinga litlar.
Fyrsta albúmið um Ástík og félaga á íslensku kom út árið 1974, Ástríkur gallvaski. Það sama ár komu út tvö önnur albúm, Ástríkur í Bretlandi og Ástríkur og Kleópatra.Mér telst til að alls hafi komið út 16 albúm á íslensku og það síðasta var gefið út árið 1983. Það ætti því að vera kominn tími til að gefa út eitt albúm til heiðurs afmælisbarninu á íslensku.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.