Myndasögur 2016

Það er við hæfi um áramót að líta yfir liðið ár í útgáfu myndasögunnar á íslensku. Árið var mjög gott að þessu sinni og voru gefnar út samtals 17 myndasögubækur, ef að ég hef talið rétt og tekið eftir öllum þeim sem hafa verið gefnar út á þessu ári. Ég þarf að fara alla leið aftur til ársins 1989, til að finna ár þar sem gefið var jafn mikið eða meira út (þá voru það 17 myndasögubækur). Af þeim 17 bókum eru 8 bækur eftir íslenska höfunda.

Blöð

Blek_29_30Í ár varð NeóBlek 20 ára en fyrsta Blek blaðið kom út árið 1996. Í tilefni af því var haldin sýning um 20 ára feril blaðsins og gefið út veglegt afmælisblað, þar sem 13 íslenskir myndasöguhöfundar tóku þátt. Á þessum 20 árum voru gefin út 30 blöð af Bleki. Sorgartíðindin eru hins vegar að með tölublaði 29/30 var um síðasta NeóBlek blaðið að ræða i bili og er óvíst að það komi nokkuð Blek blað út framar. 

Ókeipiss, nr. 6, kemur venjulega út í kringum Ókeypis-Myndasögudaginn fyrstu helgina í Maí, en vegna óviðráðanlegra ástæðna kom það seinna út á þessu ári. Alls áttu 15 teiknarar myndasögur í blaðinu. 

Froskur útgáfa gaf út allt í allt tíu myndasögubækur þetta árið. Þar af tvær bækur eftir íslenska höfunda.

Draumori_bok_1_150x200Draumóri nr 1, Martröð í Draumóra, eftir Andra K. Andersson og er fyrsta myndasögubók hans. Hún fjallar um draumavættinn Alfjeder sem gengur inn í draum og finnur nýskapaða draumavættinn Skaði. Eina leiðin fyrir þau til að komast úr draumnum er að finna kjarna draumsins. Hins vegar hefur martraðavættur falið sig í draumnum með það í huga að éta upp kjarnann.  Til að stöðva martraðavættinn, þurfa Alfjeder og Skaði að læra að vinna saman. Það gæti reynst þrautin þyngri, því Skaði þarf fyrst að átta sig á því hvað það þýðir að vera draumavættur. Froskur útgáfa gaf út.

Stjarna_tigri_150x200Stjarna Trígri, Svarta stjarnan, eftir Birkir Hallbjörnsson og er fyrsta myndasögubók hans. Hún fjallar um Stjörnu-Tígra sem er einskonar lögga alheimsins og ferðast um geiminn til að verja hann gegn allskonar árásum. Stjörnu-Tígri er afkvæmi tilrauna jarðarbúa til að eignast þræla sem gætu farið í stjörnustríð í þeirra stað. Í þessari bók lendir Stjörnu-Tígri á eldfimri plánetu sem stýrt er af vélmennum úr pýramídalagaðri byggingu. Með samvinnu Grama, Manna og Stjörnu-Tígra tekst að sigra vélmennin og mynda bandalag Svörtu Stjörnunar til frambúðar. Froskur útgáfa gaf út.

Froskur útgáfa gaf út átta Þýddar myndasögur:

Incal%201Fremst þar í flokki ber að nefna Inkal nr.1 eftir Moebius og Jodorowsky. Þegar Inkal kom út á sínum tíma í Frakklandi, árið 1981, olli hún straumhvörfum í myndasögum í Frakklandi og síðar í Evrópu. Moebius telst til einn áhrifa mesta myndasöguteiknara Frakka og sama fildir um Jodorowsky í vísinda- og fantasíuskáldskap.  Sagan gerist í fjarlægum heimi á fjarlægum tíma þar sem menn og ýmsar furðuverur lifa saman. Aðalsögupersónna, DiFool, er leynilögregla í flokki R og býr á stað sem er kallaður Terra 1. Fyrir að því er virðist tilviljun lendir Inkal hjá DiFool og gefur honum ótrúlegan mátt. Margir eru á eftir Inkalinum og hefst eltingaleikur um himingeimin með óvæntum stefnum í gegnum alla söguna. Fullorðnir lesendur ættu að hafa mjög gaman af sögunni, þar sem talsverð ádeilu er að finna í þeim heimi sem þeir Moebius og Jodorowsky hafa búið til. Forskur Útgáfa gefur út fyrstu 3 bækurnar í einni bók og er því um ræða mjög góð kaup. 

Lukku_Laki%20Draugabaer150x205Lukku-Láki, Draugabærinn, eftir Morris og Goscinny. Lukki-Láki varð 75 ára á árinu og því ekki úr vegi annað en að hann komi út aftur á íslensku. Lukku Láki rekst á tvo spilasvindlara: Kalla og Danna á ferð sinni sem leiðir hann í Tígulgil, bæ sem er skammt frá Gullhæð þar sem allt snýst um gullgröft. Siggi skot er eini íbúi Gullhæðar og rekur alla í burtu, fullviss um að þeir ásælist gullnámuna hans. Reyndar virðist ekkert gull að finna í námunni, en karlinn leitar þó enn í von um ríkidæmi. Kalli kóngur og Danni kaupahéðinn sjá tækifæri til að hirða gullnámuna af þeim gamla en þá er Lukku-Láka að mæta. Froskur gefur út.

Loa4_cover150x201Lóa nr. 4, Ástarsæla eftir Julien Neel. Lóa, Mína, Fatíma og María Emilía fara saman í sumarfrí á sólarströnd og dvelja ásamt foreldrum Maríu Emilíu í æðislega flottu húsi með sundlaug. En sumarfrí er ekki bara tími slökunar við bakka sundlaugar að rabba saman um næsta verslunarleiðangur, sumarfrí er líka tími ástar og þegar þær hitta fjóra stráka niður í bæ snúast dagarnir um að skemmta sér með tilvonandi kærustum. Í ástum er aldrei neitt öruggt og þær eins og þeir fá að kynnast því. Lóa kemur heim úr fríinu alveg ringluð og veit ekki lengur hvað er rétt og hvað er rangt.

Timaflakkarar4_cover150x201Tímaflakkarar nr. 4. eftir Zep, Stan og Vince. Soffía og Snorri eru spennufíklar og hika ekki við að hoppa til fortíðar í leit að fróðleik. Þau reyna að koma Kristófer Kolumbusi í skilning um  að Ameríka sé í Evrópu og að hann þurfi ekki að fara langt til að finna fyrirheitna landið. Listmálarinn Hitler skilur ekki smekkleysi S. og S. (góður þessi) á listrænum hæfileikum sínum og fer eins og kunnugt er að dunda sér á öðruvísi nótum. Tesla er í óða önn að uppgötva allskonar fyrirbæri og fá einkaleyfi á þeim en fáir hlusta á hann. Soffía þolir ekki lengur hvað Snorri hámar mikið af hnetusmjöri í sig og hringir í sönggoðið Presley til að bjarga málunum! Á meðan reddar Jesús afmælispartíi sem annars hefði endað með gráti. Jahá, með Snorra og Soffíu verður lífið aaaðeins litríkara..

Viggo_kapa_album3Viggó nr. 3, Braukað og bramlað, eftir André Franquin. Það er ekki hægt að stoppa Viggó í viðleitni sinni til að bæta vinnuumhverfi sitt. Það er reyndar álitamál margra um það hvernig hann fer að því. Valur er með þetta á hreinu. Það má ekki hleypa þessum starfskrafti eða öllu heldur starfsleysingja inn um skrifstofudyrnar annars fer tíminn í allt annað en að flokka póstinn. Uppfinningar, viðgerðir og aðrir slökkunartímar eru aðal viðfangsefni Viggós. Hvernig gæti hann eytt þeim litla tíma sem eftir er af deginum til vinna fyrir laununum sínum?

Asterix_Piktarnir_Cover150x197Ástríkur nr 35, Í Piktalandi, eftir Jean Yves Ferry og Didier Conrad. Ástríkur í Piktalandi er fyrsta bókin þar sem hvorki Goscinny né Uderzo taka þátt í að gera. Ástríkur og Steinríkur finna ísklump við strönd Gaulverjaþorps og inn í honum er undarlegur frosinn maður. Eftir að hann rankar við sér er silgt með hann til síns heima til Piktalands. Þar eru kosningar að fara í gang um nýjan foringja og rómverjar blanda sér í pólitík héraðsins. Froskur útgáfa gefur út.

Strumparnir_og_ohraesid_150x205Strumparnir og óhræsið, Öðruvísi strumpurinn, eftir Peyo og Gos. Strumparnir eru komnir á kreik í nýrri bók með tveimur ævintýrum. Í því fyrra ræðst ógeðfeldur fugl á þorp strumpanna eftir að tveir óvarkárir strumpar kasta út í bláinn flösku sem inniheldur seyði sem yfirstrumpur bjó til og breytir lífverum í ógnvekjandi martröð. En Strumparnir deyja ekki ráðalausir og sigrast að lokum á óhræsinu. Í seinni sögunni er einn strumpurinn í þorpinu orðinn leiður á að strumpa ekki neitt og vill sjá heiminn. Hann ákveður því þvert á ráðleggingar yfirstrumps að fara af stað og kynnast ævintýrum sem heimurinn býður upp á. En það er ekki sjálfgefið að yfirgefa hreiðrið og lifa af skóginum.
Strumpum vel á móti strumpunum!

Svalur_Valur_58_150x200Svalur og Valur nr. 58, Hefnd Gormsins, eftir Yoann og Velhmann. Svalur og Valur fengu ljósmyndir frá Don Contralto í lok síðasta ævintýris. Myndirnar sýna þá og Gormdýrið saman í frumskóginum í Palombíu en það er eitthvað við myndirnar sem Svalur nær ekki að skilja. Eftir miklar vangaveltur ákveða félagarnir að halda til Palombíu og taka Zantafio, frænda Vals, með til að finna Gorm sem þrjótar höfðu rænt. Endurfundirnir reynast erfiðir og ánægjulegir í bland. Hvað verður um Gorm? Vill hann koma aftur til borgarinnar eða vegnar honum best í sínum upprunalegu heimkynnum?

Iðunn gaf út tvær bækur árið 2016:

VargoldVargöld, eftir Þórhall, Jón Pál og Andra, er fyrsta bókin af sex og inniheldur upphafskaflana Svikalogn og Blóðbragð. Hún fjallar um menn og goð á heiðnum tímum, þar sem flettað er inn frásögn af upphafi veraldar eins og þeim er lýst í Völuspá en megin sagan fjallar um Vikar sem hefur skipt um líferni og lifir með óléttri konu sinni Grían. Hann lendir þó í spunavef goðanna og lendir í miklum átökum. Þar sem þetta er fyrsta bókin hefur sagan en ekki tekið flug þegar bókinni líkur. Iðunn gefur út.  

42753-godheimar-7-kraekt-i-orminnKrækt í orminn eftur Peter Madsen, er sjöunda bókin í bókaröðinni Goðheimar. Að þessu sinni keppir þrumuguðinn Þór við stríðsguðinn Týr um það hver þeirra sé máttugri. Þeir leggja í mikla hættuför yfir Útgarð og reynir á vináttu þeirra, þegar Þór freistar þess að krækja í sjálfan Miðgarðsorminn. Útgefandi er Iðunn.

Hvad_maelti_odinnGisp gaf út bókina Hvað mælti Óðinn eftir Bjarna Hinriksson og Jón Karl Helgason. er frjálsleg endursköpun á eddukvæðinu Vafþrúðnismálum, einu elsta og vanmetnasta snilldarverki íslenskrar bókmenntasögu.
Kvæðið lýsir háskalegri fróðleikskeppni Óðins og jötunsins Vafþrúðnis en birtir um leið heimsmynd heiðinna manna með eftirminnilegum hætti. Samkvæmt Vafþrúðni var jörðin upphaflega smíðuð úr skrokki jötunsins Ýmis en hann spáir jafnframt fyrir um endalok Óðins og fleiri guða í Ragnarökum.

SuperkukurSúperkúkur eftir Hugleik Dagsson og Árna Jón Gunnarsson. Ímyndaðu þér hvernig það er að hafa ofurkrafta. Að geta flogið, lyft húsum, séð í gegnum veggi og skotið geislum úr augunum. Að geta farið í lautarferð á tunglinu. Að geta rænt banka á einni sekúndu. Að geta bjargað heiminum. Ímyndaðu þér hvernig það er. Og ímyndaðu þér að það eina sem þú þurfir að gera til að öðlast þessa krafta … sé að éta skít.
Þetta er fimmta bókin í Endalok seriunni Hugleiks Dagssonar. Ókeibæ gefur út.

WheresGodWhere's god? eftir Hugleik Dagsson. Bækur Hugleiks valda mér yfirleitt ákveðnum vandræðum, á að flokka þær sem myndasögur eða skopmyndir. Þessi bók var lengi vel í flokknum skopmyndir en meiri hluti bókarinnar inniheldur skopmyndir. Það er ekki fyrr en undir blálokin að það kemur myndasaga í týpískum Hugleiksstíl og því flokka ég bókina sem myndasögu. Hin spurning er, er þessi bók á íslensku? Hún fær að fljóta með sem útgefin íslensk myndasögu bók. En bókinni er lýst eftirfarandi: God is missing. Can you find him? He must be around here somewhere. ÓkeyBæ gefur út.

Ormhildur_bokOrmhildarsaga eftir Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir. Árið er 2043. Jöklar heims hafa bráðnað og leyst úr læðingi forna vætti. Á Fróneyjum reika nykrar, skoffín og nátttröll um göturnar en íbúar hafa lært að lifa í sambúð með þessum hættulegu þjóðsagnaverum. Ormhildur, ungur fræðimaður hjá Kukl- og galdrarannsóknarsetri ríkisins, hefur fundið fornan seið sem læsir kvikindin aftur í klakabrynju. En til að femja galdrin þarf hún að komast á tind Heklu. Hún leitar á náðir Heimavarnarliðsins en í ljós kemur að það vilja ekki allir hverfa aftur til fyrri tíma. Salka gefur út.

10717441805587.Y3JvcCwyODYwLDIyMzgsOTQ2LDE1ODgGombri eftir Elínu Eddu. Sagan fjallar um náttúruvernd, sannleikann og hvernig það er að takast á við lygar. Gombri ákveður að yfirgefa heimili sitt, vegna þess að hann er orðinn leiður á drunganum sem umkringir hann. Á leið sinni lendir hann í ýmsum ævintýrum og hittir meðal annars Móður Jörð sem hefur flúið vegna ágengni íbúa sinna. Elín gaf út bókina sjálf.

Í talningu minni á útgefnum myndasögum, þá hef ég ekki talið Andrés Önd blöðin og Syrpuna (13 bækur) sem Edda Útgáfa hefur gefið út á íslensku og hefur gert það undanfarin ár (og áratugi, ef út í það er farið) og þar hefur ekki orðið untantekning á þetta árið. Ástæðan er sú að ég hef ekki talið það með í gegnum tíðina og til þess að hafa marktækan samanburð þá hef ég leyft mér að telja þessa útgáfu ekki með. Annars værum við að sjálfsögðu að tala um 30 myndasögu bækur gefnar út á íslensku árið 2016.

Ég held að þetta séu þá allar upptalnar bækur á árinu 2016, en ef ég hef gleymt einhverju þá endilega látið mig vita. Þróunin síðust ár hefur verið mjög jákvæð fyrir myndasöguna á Íslandi og hægt og rólega getum við farið að tala um myndasögumenningu á Íslandi. Árið 2017 verður því forvitnilegt og eru öll blik á lofti, að það ár verði ekki síðra ef ekki betra en árið 2016! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband