Íslenskar myndasögur 2010

Við áramót er ekki úr vegi annað en að líta um öxl og skoða hvað hefur verið gefið út af íslenskum myndasögum á síðasta ári. Eins og hefur verið síðast liðin áratug er því miður ekki um margar myndasögur og eiginlega hægt að telja myndasögurnar á fingrum annarrar handar. Ef mér hefur yfirsést einhverjar myndasögur þá mun ég glaður leiðrétta og bæta við svo endilega látið mig vita. 

Eineugdi_kotturinn-175x250Hugleikur Dagsson hélt sínu striki, sem fánaberi íslenskra myndasagna á síðasta ári með tveimur myndasögum (hinar bækur hans flokka ég undir skopmyndir). Fyrst má telja bókina Eineygði kötturinn Kisi og leyndardómar Eyjafjallajökulseftir Hugleik en teiknað af Pétri Antonssyni. Ef ég fer rétt með þá er þetta þriðja bókin um eineygða köttinn Kisa. Í fyrra var það sagan um ástandið og núna um gosið í Eyjafjallajökli. Hin bók Hugleiks, Garðarshólmi hefur komið út í hlutum, en á síðasta ári var sagan gefin út í heild sinni, en myndirnar var að finna í símaskránni 2008 og 2009.

blekforsidaÞað má síðan ekki gleyma myndasögublaðinu NeoBlek, sem kom út á síðasta ári eftir árs hlé og er stefnt á útgáfu 4ja tölublaða árið 2011. Auk íslenskra myndasagna þá var í blaðinu framhaldssagan 3ja Testamentið, sem er frönsk myndasaga eftir Dorison og Alice. Framhald sögunnar verður í næstu tölublöðum NeoBleks.

Og svo var að finna í fyrsta tölublaði tímaritsins Furðusögur eina íslenska myndasögu, en framhald hennar verður líklegast að finna í næstu tölublöðum tímaritsins Furðusögur.

Þá held ég að útgáfa íslenskra myndasagna sé upptalinn á árinu 2010! (Og ég verð yfir mig ánægður ef einhver bendir mér á myndasögu sem ég hef gleymt).

Nokkrar þýddar myndasögur voru gefnar út á árinu 2010 og þar á meðal endurútgefnar myndasögur.  

Edda útgáfan, gefur út myndasögublaðið Andrés Önd og félagar í íslenskri þýðingu og svo Syrpuna sem eru þýddar myndasögur um Andrés og félaga í kiljuformi.  Á síðasta ári var svo gefinn út bók um líf og störf Jóakim Aðalönd eftir Don Rosa.

Iðunn/Forlagið endurútgaf fjórar Tinna bækur á árinu 2010: Leyndardómur Einhyrningsins, Fjarsjóður Rögnvaldar Rauða, Krabbinn með gylltu klærnar og Skurðgoðið með skarð í eyra.Bækurnar eru þýddar af Lofti Guðmundssyni. Iðunn/Forlagið endurútgaf einnig fyrstu bókina í bókaröð Danans Peter Madsens Goðheimar en fyrsta bókin ber nafnið Úlfurinn bundinn og er þýdd af Guðna Kolbeinssyni. Bækur Petersens um Goðheima eru alls 15 og það væri frábært ef að Iðunn myndi gefa þær allar út á íslensku. 

Þetta er allt sem ég hef fundið af útgáfu myndasagna á íslensku árið 2010.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er sorglegt ástand og þessu verður breytt.

Ragnar (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 16:01

2 Smámynd: Stefán Einarsson

Ég er sammála Ragnar. Og þetta getur ekki orðið annað en betra. En veist þú um einhvern eða einhverja sem eru að gera eitthvað til þess að breyta þessu?

Stefán Einarsson, 19.3.2011 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband