Færsluflokkur: Menning og listir
9.2.2009 | 21:14
Hinar sjaldséðu myndasögur nútímans
Ætlunin með þessu bloggi er að skrifa um myndasögur og í raun ekki að setja nein mörk á hvað það er sem ég skrifa í tengslum við þær. Ástæðan er einfaldlega að myndasögur fá ekki mikla umfjöllun og eru frekar lítið í umræðunni á Íslandi. Í gegnum tíðina þá hef ég bara séð blogg Björgvins Benediktssonar tileinkað myndasögum. Hann fjallaði þar aðallega um bandarískar myndasögur en því miður er síðasta færsla hans frá árinu 2007. Önnur blogg hafa kannski minnst stutt á myndasögur.
Önnur umfjöllun um myndasögur á Íslandi er mjög fábrotin. Morgunblaðið hefur stundum fjallað um myndasögur enn og aftur er megin áherslan á bandarískar myndasögur. Það er svo sem ekki skrítið því að flestar myndasögur sem að koma til Íslands eru frá Bandaríkjunum og ein af ástæðunum er að sjálfsögðu að flestir Íslendingar eru færari í ensku en frönsku eða japönsku. Með innreið Manga á enskan markað hafa Íslendingar fengið að njóta japönsku myndasagna. Hin litla og fábrotna umfjöllun á netinu sem er til um myndasögur á íslensku er að finna á wikipedia og þar er meira að segja að finna stutta umfjöllun um íslenskar myndasögur (reyndar skrifað af mér og þyrfti talsverðar lagfæringar).
Íslenskar myndasögur eru mjög fyrirferðalitlar það er þó gefið út eitt íslenskt blað tileinkað íslenskum myndasögum, Hasarblaðið Blek, og hefur það komið út frá árinu 1996 og er það að þakka frábæru framtaki Jean Posocco og Þorsteini S. Guðjónssyni. Mest áberandi íslenski myndasöguhöfundurinn er Hugleikur Dagsson og að vissu leiti segir það mikið til um ástands myndasögunnar á Íslandi. Þýddar myndasögur eru einnig mjög fáar og þó að Fölvi hafi reynt að lífga þá útgáfu eitthvað við árið 2007 þá varð ekkert framhald þar á síðasta ári. Því miður.
Ég hef þó trú á því að það séu fleiri en bara ég sem finnst myndasögur áhugavert form til þess að segja sögur og njóti þess að lesa myndasögur. Þegar ég ólst upp þá blómstraði myndasagan á Íslandi og hver veit þá gæti slíkt gerst aftur. Áhugi ungafólksins á manga hefur leit til þess að þýddar hafa verið manga bækur á íslensku og í Evrópu og Bandaríkjunum hefur sú þróun orðið til þess að markaðurinn hefur opnast aftur. Ég er þeirrar skoðunar að það eru talsvert af holum í útgáfu myndasagna á Vesturlöndum og ef útgefendur myndu gera sér grein fyrir því gæti myndasagan fest sig í sessi og þá ekki bara sem barnabókmenntir.
Ég hef í þessum tilgangi ákveðið að reyna að skrifa stutta pistla um myndasögur og reyna að fara sem víðast. Ef mér finnst tilefni til þá skrifa ég kannski einhverjar fréttir tengdar myndasögum hér. Ég mun reyna að skrifa pistlana vikulega og það er mín von að þetta gefi öðrum tækifæri á að ræða um myndasögur.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)