Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Laugardagur, 20. október 2012
Yfirráð ristavélarinnar
Rakst á uppkast að grein sem að ég skrifaði fyrir 10 árum síðan og fannst tilvalið að birta hana hér á blogginu:
Það er ávalt gaman að velta fyrir sér hvernig framtíðin verði og hvernig tæknin eigi eftir að þróast á næstu árum og hvaða áhrif það hefði á líf okkar.
Ég var 5 ára gamall þegar ég kynntist tölvu fyrst. Það var Commador VIC-20, 4 KB í minni stækkanleg í 20 KB, 8-bita örgjörvi sem keyrði á 4 KHz, enginn harðurdiskur eða disklingadrif, hvað þá geisladrif eða DVD-drif, nei, það var segulbandstæki. Á segulbandstækinu var teljari, þ.a. spólan var spóluð á byrjun, teljarinn núllstilltur og þaðan var segulbandsspólunni hraðspólað þangað til teljarinn var á réttum stað. Rétta staðinn fyrir hvert forrit hafði ég skrifað á blað. Þá hamraði ég skipunina load á lyklaborðið, enter-takkinn og síðan play-takkinn á segulbandstækinu og vonandi keyrt rétt forrit keyrt. Á þessum upphafsárum einmennings tölvunnar voru tölvur skelfileg tæki, ef ekki stór hættuleg. Pabbi var ávítaður fyrir að skemma mig með því að láta mig koma nálægt þessu tæki en skaðinn var svo sem skeður og enginn veit hvernig herleg heitin munu enda.
Dagur úr lífi Jóa og Stínu
Á Íslandi á þessum tíma var mjög öflugur hópur tölvugrúskara, ekki stór en fór óðum stækkandi, en þó nógu stór til þess að gefið væri út hið fínasta tölvublað sem pabbi keypti. Þar man ég eftir þýddri grein sem fjallaði um dag úr lífi Jóa og Stínu framtíðinni (einhvern tíman um tíu árum eftir útgáfu greinarinnar). Daglegu lífi beggja var lýst og hvernig tölvur aðstoðuðu líf þeirra. Vekjara klukkan vekur Jóa klukkan sjö að morgni með lágu suði og þegar Jói slekkur á henni kviknar á litlum sjónvarpsskermi rétt hjá rúminu sem birtir skilaboðin: ,,Athuga RV skýrslu áður en þú ferð. Jói gefur skipunina BR með lyklaborðinu við hlið rúmsins og tölvan staðfestir skipunina með skilaboðunum: ,,Kveikt á kaffivél. Mun hita tvær bollur.
Dagur í lífi Stefáns og Jennifer
Hvernig yrði sambærileg grein í dag? Nú er komið að því að lýsa degi úr lífi mínu og konu minnar, Jennifer, um það bil 10 ár í framtíðinni þegar ég hef keypt mér hús sem sæmir rafmagnsverkfræðingi og bíla í stíl. Eins og hjá Jóa þá byrjar vekjaraklukkan að vekja mig, hún er þó þannig hönnuð að hringingin verður aðeins í vitund minni, kona mín heyrir ekki hljóð. Ég fer á fætur og lítið vélmenni kemur hljóðlaust til mín með þau föt sem ég á að vera í dag, ég á nefnilega að fara á fund klukkan 9:00 og vélmennið minnir mig einmitt á það á skjá sínum og að ég þurfi að líta yfir skýrslu tengda fundinum. Eftir að hafa klætt mig rölti ég niður í eldhús og á leið minni þarf ég ekki að hafa áhyggjur af birtunni í herbergjunum, frekar en Jói, á meðan ég geng í gegnum þau.
Þegar ég er kominn niður í eldhús er tilbúið ristabrauð og glas af ávaxtasafa. Ristavélin spyr mig hvort að ég vilji prófa nýja ristun á brauðinu sem að hún hafi fundið út að nágranni minn vill gjarnan. Öllu heimilistæki er nefnilega einnig tengd saman og þannig heldur t.d. ristavélin mín út sinni eigin heimasíðu á netinu sem hefur mynd af henni, helstu upplýsingar um hana og myndir af síðustu ristuðu brauðunum og þær nýjungar sem hún hefur uppá að bjóða. Ekki veit ég hver hefur áhuga á að skoða heimasíðu ristavélarinnar, allavega ekki ég, en kannski aðrar ristavélar, þannig fann hún að minnsta kosti hvernig nágranni minn vill hafa sín brauð ristuð. Ég sest við eldhúsborðið til að snæða morgunverðinn. Í hluta borðsins get ég rennt yfir skýrsluna fyrir fundinn og skrifað athugasemdir með penna mínum beint á borðið sem tölvan tekur niður. Skýrslan er talsverð langloka svo ég bið tölvuna að taka útdrátt í samræmi við þær athugasemdir sem ég hef gefið að svo stöddu. Tölvan tekur þessa 152 síðna skýrslu og skilar útdrætti sem er rétt um 15 línur, þarna sparaði ég mér talsverðan tíma.
Eftir að hafa klárað morgunverðin kemur þjónustuvélmenni og tekur af borðinu eftir mig. Á leið úr eldhúsinu segi ég ristavélinni að ég vel frekar hafa mína ristun á brauðinu en nágrannans. Þegar ég kem út í bílskúr er bíllinn kominn í gang og þegar ég sest upp í hann spyr hann mig hvort hann eigi að keyra mig í vinnuna. Ég játa því. Bílinn hefur nefnilega lært mynstrið hvenær ég þarf að fara hvert og veit það oftast betur en ég, auk þess sem það hann er búinn að athuga dagskrá dagsins í dag. Hins vegar þarf bíllinn að fá staðfestingu frá mér hvert á að fara. Bíllinn hefur einnig haft samband við næstu orkustöð til þess að hlaða sig yfir nóttina. Ég er mjög ánægður með þessa þjónustu og ég hef kennt bílnum að fá hana sem ódýrasta. Meðan bíllinn keyrir mig í vinnuna þá renni ég yfir áhugaverðustu fréttirnar á mogganum. Tölvan veit hvað ég hef áhuga á svo að hún er búinn að taka þær fréttir saman sem ég hef áhuga sem í dag eru bara teiknimyndasögurnar.
Á skrifstofunni
Þegar ég kem á vinnustað minn heilsar öryggistölvan mér og skráir komu mína. Á sama tíma er einhver sérkennilegur náungi að reyna að komast inn en fær létt raflost þar sem hann er víst á sakaskrá lögreglunnar. Þegar ég kem á skrifstofu mína lætur skrifstofutölvan mín vita að fundinum seinki um 15 mínútur. Ég verð að viðurkenna að ég kunni betur við einkaritarann sem ég hafði heldur en að láta tölvuna sjá alfarið um þessi mál en forstjóranum leist svo vel á einkaritara minn að núna er hann kominn með þrjá og þar á meðal þann sem ég var með. Reyndar get ég ekki kvartað mikið þar sem ég fæ allar upplýsingar sem ég þarf þegar ég þarf þær og hef aldrei verið skipulagðari í vinnunni. Ég athuga hverjir muni vera á fundinum og það kemur í ljós að það eru allt mjög valdamiklir menn innan fyrirtækisins svo þetta verður mikilvægur fundur. Ég ákveð að tala við samstarfsfélaga minn hvernig skotveiðin um helgina hefur verið þangað til að fundurinn byrjar.
Aftur heim
Um það leiti sem að fundurinn er að hefjast fer Jennifer á fætur. Tæknin hefur að sjálfsögðu gert það að verkum að við þurfum ekki að fara í vinnuna jafnvel ekki á fundi þar sem að við getum sent hólógram mynd af okkur og tekið þannig þátt í fundinum. Mér sjálfum finnst það ekki þægilegt en það gerir mér þó kleift að taka þátt í fundum erlendis án þess að þurfa að eyða tíma mínum í ferðalög. Ég og Jennifer skiptum á milli okkar húsverkunum og hvort okkar er heima með börnunum.
Húsverkin eru þó orðin mjög þægileg. Ísskápurinn heldur utanum þau matvæli sem til eru ásamt frystikistunni og í sameiningu sjá þau um að panta nauðsynlegan mat. Þetta sparar okkur talsverðan tíma í búðarferðir ekki það að hægt er að panta allt beint í gegnum netið. Þurrkarinn og þvottavélin eru perluvinir og þvottavélin lætur þurrkarann vita þegar von er á miklum þvotti. Þetta er einkar hagkvæmt því að samvinna þeirra auðveldar okkur að halda utanum ástand fatanna og einmitt í gær hafði þurrkarinn tekið eftir fötum á útsölu sem hann hafði pantað og gefið fötin sem ekki voru í nógu góðu ástandi til Rauða krossins. Lítil þjónustuvélmenni sjá um að þrífa íbúðina svo að Jennifer getur einbeitt sér að vinnu sinni þar til að börnin vakna en þá eyður hún tíma með þeim og skemmtir sér konunglega.
Að fundi loknum
Fundurinn gekk því miður ekki nógu vel. Farið var mikið í smáatriði í skýrslunni sem ég hafði bara gert útdrátt úr. Ég var þess vegna ekki alveg með á nótunum og var hvað eftir annað tekinn í bólinu. Ég ákvað því að taka bíltúr til þess að dreifa huganum. Til þess að losa um spennuna tók ég sjálfstýringuna af en ég verð að viðurkenna að bíllinn er ekki sami vinurinn og hann var áður fyrr. Ég keyri út á hraðbrautina og þegar þangað er komið byrjar bíllinn að nauða í mér að ég keyri yfir hámarkshraða og bremsar mig af. Eftir um það bil hálftíma akstur ákveð ég að fara að versla til þess að dreifa huganum og keyri að nálægri verslunarmiðstöð. Það er mjög mikið að gera og reyndar merkilegt að þegar tölvurnar hafa einfaldað líf okkar mannvera og við höfum meiri frítíma þá er það eina sem okkur dettur í hug að gera við þennan frítíma að rölta um verslanir! Höfum við ekkert betra að gera?
Engin stæði eru laus nálægt svo að ég ákveð að leggja upp á stétt nálægt innganginum. Þegar ég reyni hins vegar að slökkva á bílnum neitar hann og segir mér að þetta sé enginn staður til þess að leggja bílnum það sé nóg af lausum stæðum. Eftir nokkrar ítrekaðar tilraunir án árangurs ákveð ég að skilja bílinn þá bara eftir í ganga þarna og kíkja í verslanir en hann neitar að opna hurðina svo ég komist út. Þetta er orðið pirrandi. Ég gefst upp. Það er bara best að koma sér heim. Ég set sjálfstýringuna á og segi bílnum að keyra heim.
Heima
Þegar ég kem heim, mætir Jennifer mér í dyragættinni mjög æst og segir mér að fataskáparnir hafi farið í sameiginlega fýlu og gefið öll föt okkar til líknamála. Þeir eru að mótmæla því að þeir fengu engu með ráðið um fatakaup eða hvaða föt væru ekki í nógu góðu ástandi. Þetta er nokkuð slæmt því að við erum boðin í mjög fínt matarboð í kvöld. Þetta eru ekki góðar fréttir. Eftir atvik dagsins er ég ekki alveg í besta skapi svo að ég rölti að ísskápnum til þess að fá mér eitthvað í gogginn og róa mig niður og hugsa skýrt. En ísskápurinn neitar að opna þar sem hann segist hafa verið að tala við baðvigtina og ég sé orðin of þungur og megi ekki við bita milli mála. Ég reyni að malda í móinn en það er gagnlítið að reyna að rökræða við tölvur þær vantar allar tilfinningar í samræðurnar. Eftir að hafa öskrað nokkur vel valin orð að ísskápnum athuga ég tölvupóstinn minn. Ég hef fengið nýjan póst: frá ristavél sem hefur kannað feril ristavélar minnar. Henni finnst að ristavélin mín ekki hafa staðið sig í starfinu. Hún sé orðin frekar gömul og því sæki þessi ristavél um starf hennar og segist geta valdið því mun betur.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)