Inngangur að myndasögugerð

Hingað til hef ég ekkert skrifað um gerð myndasagna, svo kannski kominn tími til. Þessi inngangur er frekar hugsaður til að gefa innsýn inní myndasögugerð, þar sem að auðvelt væri að fylla bók bara með inngangi að myndasögugerð. Ég reikna með að taka fyrir einstaka þætti í myndasögugerð fyrir í einhverjum færslum í framtíðinniþ

Það er ekki til nein ein rétt leið til þess að gera myndasögu, svo að það er engan vegin hægt að setja þetta fram sem uppskrift sem fólk getur farið eftir og tilbúinn er myndasaga sem allir hafa gaman af. Eins eru til mismunandi skoðanir á því hvernig góð myndasaga á að vera. Og að sjálfsögðu eru til mjög mismunandi aðferðir og hugmyndir hvernig á að kenna myndasögugerð.

Einn af mínum myndasögukennurum sagði margoft að sá sem gerir myndasögu þarf að hafa kunnáttu á mörgum sviðum. Hann þarf að geta teiknað, samið sögu, skrifað handrit, leikstýrt, leikið, málað, þekkja til litafræði, þekkja til prentverks, hanna byggingar, hanna innbú, hanna föt o.s.fr. Að sjálfsögðu er hægt að gera myndasögu án þess að hafa þekkingu á öllum upptöldum atriðum en vilji maður starfa við myndasögugerð og gera góðar myndasögur er betra að hafa einhverja innsýn inní þessa þætti.

Það er til mjög mikið af bókum tengdar myndasögugerð og fyrir einhvern sem að langar til að læra hvernig á að gera myndasögur getur verið erfitt að finna þá bók eða þær bækur sem eru af einhverju gagni. Ég mun nefna eina eða aðra bók sem ég held að geti hjálpað. Bækurnar eru þó allar á ensku þar sem ég hef ekki séð neina bók á Íslensku um myndasögugerð. Þeir sem hafa lesið nýjustu NeoBlek bl0ðin hafa þá séð greinarstúfa í blaðinu um myndasögugerð.

Einn af grundvöllum þess að gera myndasögu yfirhöfuð er að skilja hvað myndasaga er. Þetta hjómar kannski einfald og óþarfi að nefna en ástæðan fyrir því að ég nefni þetta atriði, er sú að sá sem aldrei hefur lesið myndasögu mun eiga mjög erfitt með að gera góða myndasögu. Sá sem skilur hvernig myndasaga virkar er strax í betri aðstöðu að gera góða myndasögu og þess vegna er mjög hjálplegt að lesa myndasögur. Með því móti lærum við ómeðvitað hvernig myndasaga virkar og frásagnatækni hennar. Í því samhengi bendi ég á bók Scott McLoud Understanding Comics sem var brautryðjenda verk þegar hún kom út.

Eitt af grunnatriðum myndasögunnar eru myndirnar sem að segja söguna. Mikill meiri hluti myndasagna er handteiknaður en á síðari árum hefur tölvan verið notuð meir og meir við gerð myndasögu, í flestum tilvikum til þess að vinna handteiknuðu myndirnar enn frekar, t.d. lita þær, en einnig til þess að gera myndirnar frá grunni, t.d. teikna í tölvu eða nota þrívíddar forrit til þess að gera myndirnar. Önnur leið væri að taka myndirnar á myndavél og búa þannig til myndasögu. Myndir með myndavél hafa hins vegar þann ókost að mjög líklega er þörf á leikurum og mikil eftirvinnslu er þörf ef að myndasagan á ekki að gerast í nútímanum og í hversdagsleikanum.

Það borgar sig því fyrir þann sem ætlar að gera myndasögu að læra (eða kunna) að teikna. Hversu góður teiknari fer eftir smekk og kröfum hvers og eins, svo og þeirri sögu sem að á að vera sögð. Það er talað um mismunandi teiknistíla. Hver stíll hefur sína kosti og galla og passa misvel til að segja ákveðnar tegundir af sögu. Teiknistíll eins og Hugleiks Dagssonar hentar vel þeim sögum sem að hann er að segja, svartur og oft á tíðum ofbeldisfullur húmor hans kemur vel til skila án þess að ofbjóða fólki, þar sem ímyndunarafl lesandans sér um að túlka myndasöguna yfir á veruleikann. Með þessum stíl á Hugleikur þó erfiðara með að fanga lesandann í sögu sinni, lesandinn hefur alltaf ákveðna fjarlægð frá söguna þar sem að teikningarnar eru almennar og óhlutbundnar. Dramatískar, tilfinningaríkar og flóknar sögur er erfitt að segja með þeim stíl sem Hugleikur notar í flestum sínum verkum, en slíkar sögur er Hugleikur heldur ekki að reyna að segja.

Hænan eða eggið: er samt til uppskrift?

Þegar verið er að búa til myndasögu er ákveðin skref sem gott er að taka í ákveðinni röð, t.d. er gott að vera a.m.k. með drög af sögu áður en byrjað að teikna. Það er erfiðari leið að teikna helling af myndum og reyna síðan að púsla þeim saman svo að þær myndi sögu. Hefðbundið ferli til að búa til myndasögu má skipta upp í eftirfarandi skref:

  1. Uppkast að sögu skrifað. Hér er venjulega hugmynd myndasögunnar ákveðin, aðalpersónurnar og gróf atburðarás samin.
  2. Handrit skrifað. Það er mjög mismunandi hversu nákvæmt handrit er gert og stundum er ekki einu sinni haft fyrir því að skrifa slíkt. Í bandarískum kennslubókum er venjulega talað um muninn á DC og Marvel aðferðinni en þar eru líka um að ræða einn höfund sem sér um söguna og svo teiknara sem að sér um að koma sögunni í myndir en þegar höfundur sögunnar er líka teiknari eru þessar aðferðir ekki endilega nauðsynlegar.
  3. Pár og þumalneglur eða Skribble og Thumbnails. Hergé, höfundur Tinna, skrifaði sögur sínar með því að pára myndirnar jafnóðum og hann samdi söguna. Hann skrifaði ekki handrit. Flestir þeir sem að hafa handrit til að styðjast við teikna svo kallaðar þumalneglur (á ensku thumbnails) og á spássíur handritsins til þess að skipuleggja betur hvernig myndir eiga að vera á blaðsíðunni. Sumir gera hvoru tveggja. Stærð þumalnaglar er þó eitthvað stærri en venjuleg mannsnögl á þumalfingri. Ef handritið er nokkuð nákvæmt, t.d. skiptir sögunni í myndir (panila) á síðunni þá er stundum párað eða skissaðar hugmyndir af myndunum á spássíu handritsins.
  4. Skissur. Þegar það er nokkuð ljóst hvernig síðan á að líta út er hún skissuð á síðuna. Sumir teiknarar taka Þumalnöglina af síðunni og stækka hana upp og nota sem grunn fyrir skissuna. Aðrir skissa fyrst á minna blað og stækka það svo upp. Í skissu er leitast við að hlutföll í myndinni séu rétt svo og bakgrunnur, líkamstjáning og svipbrigði persóna komi sögunni til skila. Þetta skref er venjulega margendurtekið þar til að teiknarinn er orðinn sáttur við útkomuna.
  5. Fínteiknung/hreinteiknung. Flestir fínteikna svo skissurnar og bæta við fleiri smáatriðum í teikninguna. Það eru þó sumir teiknarar sem að fara beint í tússun. Ef það er annar sem að tússar þá komast flestir teiknarar ekki hjá þessu skrefi.
  6. Tússun eða inking á ensku. Hér eru pennar og teiknifjaðrir notaðar ásamt bleki til þess að fá teikningarnar svartar sem að prentast vel. Það eru til myndasögur þar sem að það er ekki tússað en týpískum ofurhetju sögum, manga eða evrópskum sögum er hefð fyrir því að tússa teikningarnar áður en að þær eru litaðar.
  7. Litun/röstun. Asískar myndasögur (eins og t.d. Manga) eru venjulega gefnar út í svart-hvítu í stórum heftum og pappírinn er ekki ósvipaður og er í dagblöðum eða símaskránni. Til þess að skygging og skuggar koma vel út þá eru rastar notaðir og tekst þeim þannig að ná fram mjög raunverulegum myndum með þessari tækni. Í evrópu og bandaríkjunum hafa myndasgöur þó aðallega verið litaðar. Fyrir nokkrum áratugum var talsverður munur á lituðum evrópskum myndasögum og bandarískum þar sem að bandarískar myndasögurnar voru gefnar út á mjög ódýran pappír og litirnir notaðir út frá litatöflum sem að var svo skorið út úr litaplötunum fyrir prentun. Í dag er þó mest litað með tölvum. Í evrópu voru vatnslitir mikið notaðir þar sem að síðurnar voru meðhöndlaðar eins og ljósmyndir í blöðum.

watchmen_processHér má sjá hvernig ein síða hefur þróast hjá teiknaranum Dave Gibbons en þetta er síða úr sögu hans Alans Moores Watchmen. Til vinstri er Þumalnögl af síðunni en stærð þumalnaglarinnar er á stærð við spil. Í miðjunni er svo teikning Gibbons af síðunni með blíanti og að lokum er síðan eins og hún leit út prentuð og fullkláruð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband